146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[00:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mál eru mistilbúin til að vera hleypt út þegar þau eru samþykkt hér á þingi. Eins og breytingartillaga okkar í meiri hlutanum lítur út óbreytt — þ.e. nái breytingartillaga okkar í meiri hlutanum út treysti ég því að innleiðing á þessum staðli verði góð. Ég treysti því að þeir hnökrar sem eru á málinu verði lagaðir fljótt og örugglega. Ég held að það sé ekki til skaða að lögfesta þetta mál eins og það er. Ef ég teldi að það væru þvílíkir annmarkar á málinu hefði ég ekki stutt meirihlutaálitið. Mér finnst þetta samt ekki vandaðasta leiðin til að setja lög. Mér finnst þetta engan veginn sæma máli sem einn af stjórnarflokkunum setti í algeran forgang í kosningabaráttu sinni og í stjórnarmyndunarviðræðum. Ég missi ekki svefn yfir því en myndi gera það ef ég væri í Viðreisn, að hafa komið hingað til þings með mál þar sem hafði t.d. gleymst að gera ráð fyrir að staðallinn væri aðgengilegur og þar sem ekki hafði náðst að ræða við alla þá aðila sem komu að samningu staðalsins á sínum tíma og fá þá með í að leggja málið fram. Þetta samráðsleysi kemur mér sannast sagna á óvart. En í nefndinni náðum við að ræða við alla þessa aðila. Allir þeir sem unnið hafa (Forseti hringir.) að staðlinum frá 2008 mæla með því að hann sé lögfestur og það sem fyrst til þess að vinnan við að móta innleiðinguna í öllum þessum fyrirtækjum og stofnunum geti hafist.