146. löggjafarþing — 75. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[01:01]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um breytingartillögur nefndarinnar sem hér eru til umræðu við 2. umr. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Jafnrétti á vinnumarkaði er auðvitað stórt mál sem mikilvægt er að taka á af alvöru þegar við ætlum að stíga skref í því að reyna að leiðrétta launamun kynjanna. Nefndin vann breytingartillögur á málinu eftir að við fengum umsagnir um það og tókum til umfjöllunar í nefndinni. Mig langar í örstuttu máli að fara aðeins yfir af hverju nefndin ákvað að gera þessar breytingartillögur og hvernig hún telur að þær muni bæta málið varðandi jafnlaunavottun.

Fyrst má að nefna, sem mér finnst mikilvægt, stöðu minni fyrirtækja og stofnana sem margir höfðu áhyggjur af, þ.e. að það yrði íþyngjandi fyrir minnstu fyrirtækin vegna þess að þau hafi ekki starfsafla í það verkefni og kostnaðurinn geti verið hár. Því er nauðsynlegt að við lítum til þess hvernig við getum innleitt jafnlaunakerfi og auðveldað þeim í leiðinni að innleiða jafnlaunavottun. Það varð niðurstaða okkar í nefndinni að ráðlegt væri að greina frá fyrirtækin sem væru með 25–150 starfsmenn þar sem innleiða átti jafnlaunavottun í einum rykk í lokin. Lagt var til að þeim yrði skipt í tvo hópa þannig að við tækjum fyrst 90–150 manna fyrirtæki og ári seinna 25–89 manna fyrirtæki. Með því gæfum við hinum minni fyrirtækjum enn meira svigrúm til þess að geta innleitt jafnlaunavottun, þá sérstaklega með það að leiðarljósi að þá væri komin góð reynsla á jafnlaunakerfið, hvernig það væri innleitt, og gæti reynsla hinna stærri fyrirtækja og stofnana þá nýst öðrum minni fyrirtækjum og stofnunum sem á eftir koma. Sérfræðiþekking og lausnir fyrir smærri fyrirtæki og stofnanir geta verið komin fram ef þetta er gert í hægum og góðum skrefum. Þá gefum við atvinnulífinu aukið svigrúm til að mæta kröfunum sem gerðar eru í frumvarpinu. Því hefur frestunum til að innleiða þetta verið fjölgað um einn fasa í lokin.

Þegar við ræðum um þetta mál tengist það breytingu sem við lögðum upp með í nefndinni, og mælum hér fyrir, um að ríkið gangi fram með góðu fordæmi. Það er kannski eðlilegt að þegar við gerum kröfur á fyrirtæki í landinu, að við hér stöndumst þær fyrst. Ég held að það muni vera málinu til góðs að ríkið sanni að það geti farið í gegnum svona lagað og sjái þá kannski eitthvað sem gott væri að breyta áður en sama krafa er gerð á minni fyrirtæki í landinu svo þetta verði ekki of íþyngjandi fyrir þau.

Breytingartillagan lýtur að því að fyrst komi Stjórnarráðið ásamt stærstu fyrirtækjunum og síðan allar aðrar ríkisstofnanir. Ég tel að það sé góð breyting því að þá þurfa þau öll að klára áður en fyrirtæki sem eru minni en 150 taka við að innleiða jafnlaunavottunina.

Þá er það þriðja breytingin sem mig langar aðeins að fjalla um. Það eru mælanleg markmið sem nefndinni fannst vanta í frumvarpið. Það er mikilvægt að við fylgjumst með áhrifum frumvarpsins. Launarannsókn Hagstofunnar segir að árið 2015 hafi meðallaun kvenna á almennum vinnumarkaði verið 91% af meðallaunum karla. Þar má auðvitað gera betur því betur má ef duga skal. Ef við skoðum þá tíu ár aftur í tímann voru laun kvennanna aðeins 76% af launum karla. Það hefur því mjakast í rétta átt. En launamunurinn er þó meiri ef litið er til óleiðrétts launamunar þar sem inn koma yfirvinnutímar þar sem karlar fá enn mun fleiri yfirvinnutíma greidda, sem gefur okkur frekari vísbendingu um ójafna fjölskylduábyrgð kynjanna. Þar þarf breytingar þar sem jafnlaunavottunin nær ekki að laga það. En það eru önnur atriði sem mikilvægt er að líta til í framhaldinu.

Þess vegna teljum við mikilvægt að sett verði inn ákvæði um að lagt verði mat á áhrif lagasetningarinnar því að lög sem þessi hljóta að hafa það að markmiði í sjálfu sér að verða óþörf. En fyrst og fremst eiga þau að skila árangri. Við leggjum því til að ráðherra láti meta árangur vottunar og staðfestingar á jafnlaunakerfi á tveggja ára fresti. Það er gríðarlega mikilvægt að sérfræðingar vinni að því, að mælingarnar verði í formi launakannana, rannsókna og tölfræði og að það verði gert aðgengilegt svo við getum áttað okkur á markmiðum og hvernig frumvarpinu vindur fram. Þá væri gaman, sérstaklega fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, að heyra í haust hver væri afburðaárangur af vottuninni, hver væri ásættanlegur árangur og hvaða árangur væri óásættanlegur.

Við leggjum áherslu á að fylgst verði með áhrifunum eftir að við setjum lög sem þessi.

Þá er það breytingin um birtingu staðalsins sem við töldum mikilvægt að mæta þar sem athugasemdir eins og hér hafa verið reifaðar komu fram. Framhaldsnefndarálitið fer auðvitað yfir niðurstöðu okkar í því efni. Ég ítreka að við leggjum mikla áherslu á að aðgengi að staðlinum verði tryggt. Vegna þeirrar skyldu sem frumvarpið felur í sér gagnvart fyrirtækjum og stofnunum og að einstaklingar geti kynnt sér þennan staðal, hvort sem er í heild eða einstök efnisatriði. Við beinum því til ráðuneytisins að semja um aðgang að staðlinum og munum fylgjast með því á komandi þingvetri hvernig þessu máli vindur fram eftir að það verður samþykkt á morgun.

Ég ætla þá ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég held að okkur sé öllum hjartfólgið að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði en við höfum kannski mismunandi hugmyndir um bestu leiðirnar til þess. Það er eðlilegt því að ef við værum með besta svarið við því væri launamunur kynjanna ekki fyrir hendi. En hér er verið að reyna að eyða kynbundnum launamun innan fyrirtækjanna og með þessum breytingum tel ég að vottunin geti skilað árangri og hlakka til að fylgjast með því og skrifa því undir meirihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar. Ég hlakka svo til að vinna með nefndinni minni og jafnréttisráðherra að frekari árangri í þessum efnum.