146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

[11:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég er reyndar ekki að tala fyrir skattalækkunum á þenslutímum, ég held að það sé óráð. En ef á annað borð á að gera það spyr ég hvort það sé ekki skynsamlegri leið.

Í stjórnarsáttmálanum er vissulega vikið að tryggingagjaldinu, en það er með mjög loðnu orðalagi og talað um ef svigrúm gefist í lok kjörtímabilsins. Það finnst mér ekki nægilega skýrt og það finnst mér ekki nægilega gott svar fyrir unga fólkið okkar sem getur valið allan heiminn að vettvangi.

Hér erum við ekki að tala um trúarbrögð. Við þurfum að koma þessari umræðu upp úr því formi að það sé króna eða evra eða dollari eða hvað það mátti vera. Við þurfum að setjast niður og vera fólk til þess að taka yfirvegaða ákvörðun um hvað sé best og hvernig við getum búið ungu fólki besta framtíð í þessu landi. Ef niðurstaðan verður á endanum eftir að við höfum lyft okkur upp úr skotgröfum á þann veg að íslenska krónan sé best skal ég vera fyrsti maður til að styðja það. (Forseti hringir.) En tökum þá umræðu.