146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum fyrst atkvæði um frávísunartillögu minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldi málið hafa fengið þá meðferð í nefndinni að það gæfi tilefni til þess að taka afstöðu. Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að skýringar hæstv. dómsmálaráðherra á tillögum sínum um þá 15 einstaklinga sem til stendur að skipa í Landsrétt séu nægilega vel rökstuddar og undirbúnar. Við lýsum yfir stuðningi við þær tillögur og getum þess vegna ekki fallist á frávísunartillöguna, sem er eins konar frestunartillaga, og teljum að sú frestun sem þar er um að ræða hefði ekki verið til þess fallin að leiða til lykta þann ágreining sem er í málinu.