146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þeim skamma tíma sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft til þess að fara yfir málið þá er það mat okkar í minni hlutanum að ekki hafi verið lagður fram fullnægjandi rökstuðningur af hálfu ráðherrans og því höfum við lagt á það áherslu í okkar vinnu að leggja til annars vegar að fresta þessum afgreiðslum og vísa málinu til ráðherrans. Með frávísunartillögunni erum við með því, að vísa málinu til ráðherrans, tilbúin að koma hér inn aftur eftir tvær eða þrjár vikur og afgreiða málið þegar að okkar mati væri búið að leggja fram fullnægjandi rökstuðning. Við Framsóknarmenn styðjum þar af leiðandi auðvitað þá frávísunartillögu.

Verði hún hins vegar felld og tillagan um heildarfjölda nýrra dómenda við þetta mikilvæga dómstig komi hér til afgreiðslu, þá munum við ekki greiða atkvæði í ljósi þess að við teljum að skynsamlegra hefði verið að fá fram fullnægjandi rök fyrir þeim lista svo við gætum öll tekið afstöðu til hans. Við teljum einfaldlega að við getum ekki gert það á þessum tímapunkti.