146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er mikilvægt að traust ríki um skipun dómara við nýtt dómstig, Landsrétt. Öll málsmeðferð þarf að vera vönduð og yfir allan vafa hafin og sýnt fram á að ráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við breytingu á tillögu dómnefndar og vinnubrögð ráðherra standist stjórnsýslulög. Á því liggur vafi. Eftirlitshlutverk Alþingis er mikilvægt og þar mega þingmenn ekki bregðast skyldu sinni. Alþingi er sett í mikla tímapressu, sem er mikil vanvirðing við þetta stóra mál. Við leggjum því til í stjórnarandstöðunni að málinu sé vísað frá og unnið betur af hálfu ráðherra svo það standist alla skoðun. Það væri ógæfulegt að afgreiða þetta mál í miklum ágreiningi. Það veldur vantrausti á Alþingi, dómstóla og stjórnsýslu landsins. Gefum þessu máli meiri tíma og tryggjum vandaða málsmeðferð. Ég held að allur þingheimur ætti að sameinast um það (Forseti hringir.) að gefa ráðherra tækifæri til þess að vinna málið betur en það hefur verið gert til þessa.