147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það skyldi kannski engan undra að fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram sé jafn lélegt og raun ber vitni því það byggir á ríkisfjármálaáætlun sem helst ætti heima í moltukassa, ekki sem samþykkt ályktun Alþingis. En þetta er það sem við þurfum að spila úr.

Mig langar aðeins að fara yfir rök sem félagar mínir í allsherjar- og menntamálanefnd komu með við afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar til að sýna hvernig þetta verk hefur verið unnið yfir sumarið. Það er nefnilega hægt að skoða ákveðna pósta, skoða álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, fólksins sem er í stjórnarliðinu, sem beindi ýmsum athugasemdum til ráðuneytisins við afgreiðslu fjármálaáætlunar nú í vor.

Hér var fyrr í dag talað um að þessi ríkisstjórn tæki lítið mark á yfirlýsingum sem fyrri ríkisstjórnir hefðu gefið. Það er kannski bara skiljanlegt af því að hún tekur lítið mark á eigin yfirlýsingum, lítið mark á mati og yfirlýsingum fagstofnana, sérfræðinga, og sinna eigin þingmanna.

Tökum sem dæmi löggæslumál, stóran og mikilvægan málaflokk þar sem áætlað er að vanti á að giska 200 lögreglumenn í landið. Með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að hugað verði að auknum fjárveitingum til lögreglu, m.a. vegna fækkunar lögreglumanna og aukins álags.“

Hvað gerist í frumvarpinu? Heildarfjárheimild til málaflokksins er áætluð 14,8 milljarðar og hækkar um 154 milljónir frá gildandi fjárlögum. Þetta er 1% hækkun sem dugar hugsanlega til að halda í horfinu hjá eins og tveimur lögreglustjóraembættum þannig að ekki þurfi að grípa til uppsagna. Því það var það sem var sagt í umsögnum við fjármálaáætlun í vor, það þyrfti að segja upp lögreglumönnum ef fram héldi sem horfði. Nú þarf hugsanlega ekki að segja upp þessum lögreglumönnum en það verða ekki ráðnir inn nýir til að mæta þeirri auknu þörf sem er.

Lítum á annan málaflokk skyldan löggæslumálunum, landhelgi. Með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur því að huga þurfi að fjárveitingum til stofnunarinnar“ — þ.e. Landhelgisgæslunnar — „og undirstrikar mikilvægi þess að Landhelgisgæsla Íslands geti haldið uppi viðunandi þjónustu þar sem öryggi fólks á hafi og í landi er í húfi. “

Landhelgisgæslan er nefnilega ekkert smotterí. Hún skiptir heilmiklu máli upp á öryggi landsins. Hvað gerist? Heildarfjárheimild til málaflokksins hækkar um 307 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Þar af fara 100 milljónir í að kaupa langþráðar nýjar björgunarþyrlur og 243 milljónir eru vegna aukins rekstrarumfangs sem fjármagnað er með sértekjum. Það á sem sagt áfram að leigja TF–SIF til Miðjarðarhafsins þannig að hún þjóni ekki öryggi Íslands heldur sé bara notuð til að lempa það að Landhelgisgæslan fái ekki þann pening sem þarf. Á næsta ári verður sem sagt áfram haldið á þeirri braut að tvo mánuði á ári hafi Gæslan ekki efni á að halda skipum úti heldur liggi þau bundin við bryggju og að hálft árið verði ekki hægt að sinna björgunar- og leitarþjónustu á sjó með þyrlum. Þetta er staðreynd sem var bent á við afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar í vor, sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir á og ráðherrann gerir ekkert með.

Hvað varðar TF–SIF þá hefði verið ágætt að hafa hana í sumar þegar skipsskaði varð langt suðvestur af landinu en þyrlan var suður í Miðjarðarhafi þannig að það þurfti að fá Dani til að hjálpa. Það fór betur en á horfðist, en sýnir vel hvað aukið rekstrarumfang sem fjármagnað er með sértekjum, eins og það heitir í fjárlagafrumvarpinu, hefur bein áhrif á öryggi fólks á hafinu.

Lítum á þriðja atriðið. Hér var reyndar hlustað á meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Það eru útlendingamál. Meiri hlutinn sagði, með leyfi forseta:

„Vegna þróunar í málaflokknum telur meiri hlutinn mikilvægt að skoðað verði hvort áætlanir um fjölda hælisleitenda séu raunhæfar.“

Þetta er einmitt af því að ráðherrann hlustaði ekkert í vetur þegar hann bjó til ríkisfjármálaáætlun og gerði ráð fyrir að hælisumsóknir yrðu 700 á árinu og þeim fækkaði eftir það. Þeim myndi fækka ár frá ári þvert ofan í spá Útlendingastofnunar, þvert á það sem dómsmálaráðuneytið sagði. Á síðasta ári voru umsóknir 1.132. Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneyti gerðu ráð fyrir 1.700–2.000 umsóknum á þessu og næsta ári. Í staðinn fyrir að hlusta á þetta ákvað ráðuneytið að slumpa á 700. Þess vegna þarf að bæta við hundruð milljóna í málaflokkinn. Ekki vegna þess að útgjöldin hafi verið ófyrirséð heldur vegna þess að það var ekki hlustað á þá sem sáu þau fyrir.

Meiri hlutinn segir líka í áliti sínu:

„Útlendingamál eru að miklu leyti óviss útgjaldaflokkur þar sem erfitt er að segja fyrir um hvernig hann þróast, m.a. vegna fjölda hælisleitenda.“

En þetta var heimagerð óvissa. Þetta var óvissa sem ráðherrann bjó til með því að hunsa ábendingar sérfræðinga.

Hvað með framhaldsskólana sem hér hafa verið nefndir í umræðunum? Um þá segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að það fjármagn sem verður til í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs, þ.e. sparnaðurinn, þarf að nýtast skólunum sjálfum.“

Þetta segir meiri hlutinn í vor. Þá var reyndin sú að það var búið að lækka í ríkisfjármálaáætlun á milli ára um hundruð milljóna. Það var verið að taka sparnaðinn út úr kerfinu. Hver er breytingin á fjárlögum miðað við það sem var gert ráð fyrir í voráætluninni? Hún er núll krónur. Það er sama tala lögð til fyrir framhaldsskóla og í vor, þrátt fyrir að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar, alveg eins og við í minni hlutanum, hafi lagt til að þessi peningur yrði aukinn og nýttur til að efla skólana. Ofan á það var aðhaldskrafa á framhaldsskólastigið ferfölduð eins og við ræddum í vor.

Loks nokkur orð um háskóla áður en ég renn út á tíma. Þar er ég eins og í hinum atriðunum sammála meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar frá því í vor. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að taka þurfi til athugunar fjármögnun háskólanna og hvernig megi bæta stöðu þeirra …“

Hér er ólíkt framhaldsskólunum breyting frá voráætluninni. Háskólastigið hækkar um 44 milljónir. Þetta er ekki núll, nei, þetta er 0,1%. 0,1% hækkun til háskólastigsins á sama tíma og öll sú hækkun sem lögð er til frá síðustu fjárlögum fer í hið ágæta Hús íslenskunnar. Þetta þýðir að það er fullkomin stöðnun háskólastigsins undir þessari ríkisstjórn. Lausn meiri hlutans kom reyndar fram í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem lagði til að skoðaðar yrðu aðgangsstýringar inn í háskólana, enda er besta leiðin til að ná framlögum til háskólanna upp í meðaltal OECD-ríkjanna (Forseti hringir.) að mati meiri hlutans að fækka háskólanemum, draga úr menntun landsins. (Forseti hringir.) Á sama tíma og meiri hlutinn hlustar ekki á okkur í stjórnarandstöðunni, hlustar ekki á þjóðina, hlustar ekki á sérfræðinga eða stofnanir, (Forseti hringir.)þá skyldi kannski engan undra að hæstv. ráðherra hlusti ekki einu sinni á sína eigin þingmenn.

(Forseti (NicM): Forseti biður þingmenn að virða ræðutíma.)