147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á lögreglumálunum. Í fjármálaáætluninni voru lögð fram níu markmið, eða aðgerðir, til umbóta innan löggæslunnar. Þar er ýmislegt, t.d. unnið er að rafrænu gagnaflæði milli stofnana, bættur búnaður lögreglu, varnar- og öryggisbúnaður vegna hryðjuverkavarna og því um líkt.

Það sem við kvörtuðum undan í fjármálaáætluninni var að kostnaðardálkurinn var tómur. Það var ekki búið að kostnaðargreina þessar aðgerðir. Nú sjáum við aftur á móti í fjárlögum 2018 að aukið framlag úr ríkissjóði til rekstrar eru 400 milljónir. Það er sem sagt búið að kostnaðargreina þetta, væntanlega. En það er, eftir því sem ég best sé, engin útfylling á þessum markmiðum eða aðgerðum sem voru settar fram í fjármálaáætluninni til að sundurgreina hvað hvað kostar. Ég get fullyrt út frá minni þekkingu á ýmsu, eins og upplýsingakerfum o.s.frv., að 400 milljónir duga ekki fyrir þessar aðgerðir. Ekki séns. Markmiðið er jú á fleiri árum, en kostnaðargreiningin er algerlega tóm. Hún ætti að vera í fjárlögunum til að segja okkur eitthvað til um það hversu langt við náum í þessum markmiðum á þessu ári.

Þetta er bara eitt dæmi sem hv. þingmaður nefnir sem er vandamálið sem við búum við úr fjármálaáætluninni yfir í fjárlögin, þetta hopp þarna á milli er ekki útskýrt. Það vantar gögn til að segja okkur hvað er verið að fara að gera. Í hvað duga þessar 400 milljónir? Er verið að henda 10–20 milljónum í hvert þessara verkefna? Duga þær til að gera eitthvað í þeim? Eða hvað? (Forseti hringir.)

Ég vildi aðeins fá ítarlegri greiningu á þessum ábendingum sem komu fram hérna.