147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:18]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á þessum vandræðagangi mínum rétt áðan, ég á oftast ekki mjög gott samband við prentara. Það er fjárlagafrumvarpið 2018 sem við erum að ræða hér.

Fjárlagafrumvarp er eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar því eins og við vitum öll er um að ræða mikilvægasta pólitíska plagg sem lagt er fram á Alþingi ásamt fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem ríkisstjórn hægri flokkanna lagði fram í vor. Það er ekki lítil ábyrgð sem felst í þessu plaggi, en hvorki hér né í fjármálastefnunni fyrir næstu fimm ár sem kynnt var okkur í vor er um að ræða beysna pólitík, síður en svo. Þetta er ekki pólitík sem stuðlar að raunverulegum umbótum í innviðum þjóðarinnar sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu og boðuðu fyrir kosningar, þetta er pólitík stöðnunar og framfaraleysis.

Hvað er hér að finna? Á sama tíma og neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði, ungt og tekjulægra fólk á minna af eignum en það átti fyrir áratug og á mun erfiðara að koma sér upp þaki yfir höfuðið en áður, er hér að finna aðgerðir í húsnæðismálum sem ráðherra gumar af en eru eingöngu efndir vegna samninga í síðustu kjarasamningum. Síðan eru það heilbrigðismálin, en því miður er um að ræða litla raunaukningu í fjárlagafrumvarpinu til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, en undir hana fellur opinberi hluti sjúkrahúsþjónustunnar eins og starfsemi Landspítalans.

Ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa talað mikið um að bráðum verði tekin skóflustunga til að steypa hús fyrir meðferðarkjarna Landspítalans sem er gott og vel og þarft. En það sem skiptir mestu máli í sjúkrahúsþjónustu er einmitt sú þjónusta sem á að fara fram innan sjúkrahúsa, opinbera þjónustan við sjúklinga sem ríkinu ber að inna af hendi. Það hefur farið minna fyrir sjálfshælni ráðherranna þegar kemur að því að auka og efla sérhæfðu sjúkrahúsþjónustuna, enda er það svo að í fjárlagafrumvarpinu er að finna aukin framlög til sérfræðilækna, til einkareksturs sérfræðilækna, frú forseti, sem ekki allir hafa efni á að leita til, því miður. Hér er því um að ræða aukin framlög til einkareksturs í heilbrigðisrekstri í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir andstöðu almennings við aukna áherslu á einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Hvaða pólitíska stefna er það að hunsa vilja yfirgnæfandi meiri hluta almennings sem vill efla viðunandi opinbera heilbrigðisþjónustu í þágu allra en ekki í þágu þeirra sem hafa efni á sérfræðiþjónustu? Ósk fólksins í landinu um viðunandi opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar er hunsuð, frú forseti.

Það er vissulega að sjá nokkurra milljóna kr. aukningu á framlögum til heilsugæslunnar. Þar er um að ræða 40 millj. kr. framlag. En miðað við hve mikið ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað um og lagt gríðarlega áherslu á það í orði að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaðurinn og helsta stoðin í heilbrigðiskerfinu er ljóst að framlög til heilsugæslunnar hafa alls ekki hækkað í samræmi við þessar yfirlýsingar. Enda er það nú svo að forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarinnar, stærstu heilsugæslu landsins, telur ríkisstjórnina hafa svikið loforðið um að efla heilsugæsluna og að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar hér standist alls ekki. Það er ekki skrýtið. Framlögin sem átti að auka svo mikið eru alls 200 milljónir og eru óbreytt frá yfirstandandi ári. Óbreytt. Það eru gríðarleg vonbrigði svo ekki sé meira sagt, gríðarleg vonbrigði fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og notendur hennar, enda ekki skrýtið því með þessu ámátlega framlagi getur heilsugæslan ekki sinnt verkefnum sínum. Og tvær nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru ófjármagnaðar. Verkefni heilsugæslunnar á borð við tilvísunarþjónustu vegna barna sem þurfa á sérfræðilækni að halda verður erfiðara að sinna. Efndir ríkisstjórnarinnar á loforðum um að efla heilsugæsluna eru ekki í þessu frumvarpi, frú forseti.

Svo er það öldrunarþjónustan. Enn vantar upp á efndir í þeim málaflokki í fjármálafrumvarpinu. Áætlanir um byggingu á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða eru mjög langt frá því sem þarf þegar kemur að fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Málefni öryrkja eru fyrir borð borin í frumvarpi til fjárlaga. Hvergi er hér nefnt að ríkisstjórnin ætli sér að hækka heildartekjur örorkulífeyrisþega. Ekkert kemur fram í þessu frumvarpi sem bendir til þess að hækka eigi tekjumörk eða upphæðir fyrir húsnæðisbætur.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur talað um hversu góð ákvörðun það er að hækka greiðslur til lífeyrisþega úr 280 þús. kr. í heilar 300 þús. kr. á mánuði um áramótin næstu og taldi hæstv. ráðherra það muna miklu fyrir þann hóp. Þau skilaboð hæstv. fjármálaráðherra að fyrir það fólk sem bisar við að skrimta af 280 þús. kr. á mánuði skipti það gríðarlega miklu að fá til viðbótar 20 þús. kr. er ekkert annað en afar neikvætt viðhorf gagnvart tekjulágum einstaklingum í samfélaginu. Hvernig á að framfleyta sér á heilum 300 þús. kr. á mánuði? Ég sé ekki hvernig það á að vera hægt. Að auki er þessi snautlega hækkun sem hér er gumað af 6.700 kr. eftir skatt — heilar 6.700 kr. sem bætast við 280 þús. kr. á mánuði. Þessu gumar hæstv. ráðherra af opinberlega. Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra horft framan í fólk þegar þessi orð eru látin falla?

Fyrir hverja er þá þessi 44 milljarða kr. afgangur? Væri kannski hægt að nýta eitthvað af honum til þess að hækka greiðslur til lífeyrisþega? Væri kannski hægt að nýta eitthvað af honum til þess að veita í háskólana sem sjá ekkert nema svartnætti í sínum rekstri og þjónustu við nemendur? Eða þjónustu við aldraða eða við barnafólk? Væri hægt að nýta þessa milljarða til að treysta velferðarkerfi sem barnafólk og aðrir samfélagshópar treysta á sem er mun lakara hér en í nágrannalöndunum? Fyrir hverja eru þessi fjárlög? Ekki fyrir þá hópa sem ég hef nefnt hér. Svo sannarlega ekki. Ekki til þess að efna loforðin sem hér var talað um fyrir kosningar. Þetta er frumvarp til fjárlaga fyrir hina ríku en ekki fyrir hina tekjulágu. Þetta er ekki fjárlagafrumvarpið fyrir ungt fólk eða tekjulága. Þetta er frumvarp til fjárlaga fyrir hina efnameiri.