147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi til mín orðum vegna þess að ég taldi mikilvægt að kjör þeirra sem minnst hafa væru bætt. Ég taldi að ýmislegt hefði áunnist í því. Ég talaði um það að í breytingum sem gerðar voru á almannatryggingalögum í fyrra hefði skerðingum krónu á móti krónu verið hætt. Það var þannig að fólk sem hafði safnað sér upp í 50–60 þús. kr. í lífeyrisréttindi fékk engu meira greitt úr almannatryggingum en þeir sem engu höfðu safnað. Úr þessu var bætt. Á sama tíma var sem betur fer, og það var samþykkt af öllum þingmönnum, ákveðið að hækka lífeyri almannatrygginga fyrir þá sem búa einir úr tölum sem voru þá u.þ.b. 240 til 250 þúsund upp í 280 þúsund í ár og í 300 þúsund á næsta ári. Ég hef fengið pósta frá fólki sem er með þessi laun og auðvitað eru þetta lágar tekjur fyrir marga; ég geri ekkert lítið úr því.

Ég hef fengið pósta frá fólki sem segir: Ég þarf að velta fyrir mér hverri einustu krónu. Ég þarf að velta öllum útgjöldum fyrir mér. Mig munar um að fá hverjar þúsund krónur til viðbótar. Ég hef aldrei sagt að þetta væru miklir peningar, en ég hef sagt að það munar um það þegar fólk hefur úr litlu að spila. Við eigum ekki að gera lítið úr því. Það skiptir mjög miklu máli að við reynum að láta peningana renna sem mest til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda.