147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Kjarni nýrra útlendingalaga var mannúð. Það var kjarninn í nýjum útlendingalögum sem allir flokkar náðu saman um. Um það var talað í mörgum þingræðum að sérstaklega þyrfti að horfa til einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Það er hluti af þeim kjarna sem löggjöfin snerist um. Hæstv. ráðherra má ekki fyrtast við þegar við sem erum þingmenn og eigum að hafa aðhald og eftirlit með þeim sem fara með framkvæmdarvaldið, spyrjum spurninga þegar hæstv. ráðherra fer með þær allt of háu tölur yfir börn sem vísað hefur verið frá.

Þess vegna segja flutningsmenn þessa máls í greinargerð að árétta þurfi vilja löggjafans eins og hann birtist í lögum um útlendinga, að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Við viljum árétta þann vilja sem var algjörlega klár og skýr þegar við samþykktum lög um útlendinga í nánast algerri sátt á þessu þingi. Það hlýtur að vera eðlilegt að við sem erum þingmenn höfum rétt til þess að spyrja gagnrýninna spurninga um framkvæmd laganna. Og í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem hér eru uppi setjum við fram þetta mál sem hæstv. ráðherra efast um eða veltir fyrir sér hvort muni fá framgang. Ég treysti því að þegar gert hefur verið samkomulag um þinglok haldi það.