147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:36]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður kemur hingað upp og segir að augljóst sé að vilji löggjafans sé ekki virtur í einhverri málsmeðferð, hvers vegna kemur þá ekki þingmaðurinn og stendur að einhverri lagabreytingu sem lagar þær efnisreglur sem er verið að brjóta, þar sem er verið að fara þvert gegn vilja löggjafans? En ekkert slíkt mál er hérna fyrir þinginu. Það er ekki verið að leggja til að nokkurri einustu efnisreglu sé breytt. Þvert á móti. Hér er verið að mæla fyrir máli þar sem sagt er: Það á eftir að koma í ljós hvort er verið að fylgja vilja löggjafans eða ekki. Þessi málflutningur stenst því auðvitað enga skoðun. Það er ekki bæði hægt að koma hingað upp og segja að hér sé verið að mæla fyrir brýnu máli sem muni taka efnisreglurnar til endurskoðunar og hins vegar að það eigi allt saman eftir að koma í ljós einhvern tímann síðar. Annaðhvort er það. Það var alveg skýrt í framsögu um þetta mál að ekki er verið að mæla fyrir breytingum á efnisreglunum þegar kemur að því hvernig þessi mál eru afgreidd í stjórnkerfinu.

Varðandi það hvernig aðbúnaður hefur verið hjá hælisleitendum, hvernig ástandið hefur verið, þá verð ég bara að segja alveg eins og er að mér hefur þótt það býsna dapurlegt. Mér hefur þótt erfitt að horfa upp á það að fólk hafi verið látið bíða í óvissu. Þau eru mjög slæm dæmin um þá sem hafa fest rætur, jafnvel eignast börn á Íslandi, (Gripið fram í.) myndað fjölskyldutengsl, hafið skólagöngu, byrjað í námi, (Gripið fram í.) — ef ég mætti bara ljúka þessum örfáu sekúndum sem ég hef — (Gripið fram í: … svara spurningunni …) jafnvel skotið rótum hér (Forseti hringir.) með öðrum hætti, að tilvera slíks fólks sé rifin upp með rótum. Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum verið sammála á þinginu að það þurfi, og það var megintilgangur laganna sem við sammæltumst um síðast, að hraða málsmeðferðinni.

Það sem ég er að benda á er að við erum hér að efna til umræðu um þessi mál án þess að eitt einasta efnisatriði sé undir. Við erum svolítið að skjóta þessu máli bara áfram. Þetta er svolítið eins og að sparka vandamálinu á undan sér. Þeir (Forseti hringir.) sem tala hérna af mestum tilfinningahita nefna ekki eitt einasta efnisatriði (Forseti hringir.) sem hefur brugðist frá síðustu lagasetningu. Við sem höfum efasemdir um þetta frumvarp finnum líka til (Forseti hringir.) með þessu fólki. Við viljum bara leggja áherslu á að það séu (Forseti hringir.) öll mál afgreidd af jafnræði, (Forseti hringir.) af sanngirni og í samræmi við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.