147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:05]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ákvörðun stjórnsýslunnar um þessi tilteknu mál sem hv. þingmaður vísar til er tekin á grunni þeirra útlendingalaga sem eru við lýði í landinu í dag. Hún spyr, af hverju þessi börn? Og segir að við séum að brjóta barnasáttmálann. Ég spyr þá: Er ekki eitthvað að útlendingalögunum? Af hverju er ekki efnisbreyting, endanleg efnisbreyting á útlendingalögum lögð fyrir þingið ef fólk telur að stjórnsýslan sé að brjóta lög með ákvörðunum sínum? Ég velti fyrir mér af hverju verið sé að fara svona á hundavaði með einhverjar breytingar fyrir fáein börn í stað fleiri með þessum hætti í staðinn fyrir að gera efnislegar breytingar á útlendingalöggjöfinni, ef fólk telur að stjórnsýslan sé að brjóta hér lög. (Gripið fram í: Við börðumst á móti því …)