147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki hefðu verið gerðar efnislega breytingar, en svaraði því svo sjálf: Vegna þess að það var ekki tími til þess. Af hverju voru þá gerðar sértækar breytingar? Það er vegna þess að hvert mannslíf, hvert barnslíf skiptir máli. Það er þess vegna.

Hér talaði hæstv. ráðherra áðan um að það væri ekki von að leikmenn skildu þetta mál. Og var hún þá væntanlega að tala um okkur þingmenn sem erum ekki lögfræðingar eða lögmenn. Hv. þingmaður er hins vegar lögmaður, við skulum þá gera kröfu á hana sem slíka. Hún er sennilega að rugla saman hugtökunum jafnræði og því að eitthvað bitni á einhverjum. Getur hún sagt mér hvernig í ósköpunum það að taka afmarkaðan hóp út fyrir sviga án þess að það bitni á þeim sem síðar komi, er rökrétt? Hvernig getur það bitnað á þeim sem koma á eftir og njóta þeirra laga sem eru í dag að einhverjir aðrir hafi fengið öryggi og skjól? Eina svarið við því, hv. þingmaður, er að hún komi með okkur eftir kosningar og breyti (Forseti hringir.) löggjöfinni til frambúðar. Þetta er rökvilla.