148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þessi svör hv. þingmanns þó að ég sé ekki endilega alveg sammála honum varðandi það að aðhaldið í þessu fjárlagafrumvarpi sé nægilega mikið. Á sínum tíma var lagt upp með 44 milljarða. Nú eru þeir 35 og það er talað um að bæta í á milli umræðna þannig að aðhaldið er vissulega aðeins að slakna. Engu að síður deilum við þessari sameiginlegu sýn. Við þurfum að gæta að innviðum samhliða því að vera með ábyrg ríkisfjármál.

Stjórnarskráin — ég vil fagna því sérstaklega sem hv. þingmaður sagði, þetta er lykilatriði. Ég saknaði þess að vissu leyti í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær að fá ekki ákveðna sýn á það hvernig við ætlum að breyta stjórnarskránni. Við verðum að fara að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Það er lykilatriði til að hægt sé að vinna að þeirri þverpólitísku sátt sem við þurfum að ná og við vorum byrjuð að vinna að á síðasta þingi þar sem allir flokkar voru kallaðir að borðinu. Allir eiga að sitja undir þeirri ábyrgð að ná sáttinni. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega þá verður það ekki gert nema í samráði við greinina. Það er lykilatriði fyrir sjávarútveginn sem slíkan að við förum að leiða þessi mál í jörð. Það er hægt. Nú þegar endurskoðun á veiðigjöldunum er fram undan sé ég einmitt tækifæri til að nota þá endurskoðun til þess að reyna að ná sátt. Við eigum alla vega að láta á það reyna. Mér finnst þessi tónn mjög jákvæður af hálfu stjórnarþingmanns.

Kolefnisgjöldin. Eftir að hafa hlustað á hann og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, og um leið þau orð sem fram komu í máli hæstv. fjármálaráðherra, get ég ekki horft fram hjá því að eftir situr ákveðin tilfinning um að ekki sé eining innan stjórnarflokkanna varðandi þróun kolefnisgjaldsins. Það er kannski spurning mín til hv. þingmanns: Hvernig metur hann stöðuna? Hvernig sér hann þróunina fyrir sér? Er eining innan stjórnarflokkanna um það í hvaða veru kolefnisgjöldin eigi að þróast?