148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú þegar við ræðum frumvarp til fjárlaga 2018 í fyrstu umferð af þremur verð ég að viðurkenna að sá sem hér stendur er alls ekki búinn að lesa það endanlega sér til mikils gagns á þeim rúma sólarhring sem er frá því að okkur þingmönnunum barst það í hendur. Flest af því sem ég er búinn að átta mig á og lesa mér til um er búið að ræða í dag en samt sem áður ætla ég að árétta það sem ég skildi best.

35 milljarða afgangur í ríkissjóð, sem gert er ráð fyrir, er jákvæður, þótt það sé lægri tala en reiknað var með í síðasta fjárlagafrumvarpi, en nú vegna aukinnar útgjaldaáætlunar til innviða hefur hún lækkað. Það hafa margir beðið eftir aukinni innspýtingu í innviði.

Það eru nokkur atriði sem ég hef komið auga á og þar má nefna tryggingagjaldið. Allir flokkar voru sammála í kosningabaráttunni um að lækka tryggingagjald, einfaldlega af þeirri ástæðu að um þessar mundir er atvinnuleysi í sögulegu lágmarki auk annarra þátta. Á lækkun tryggingagjalds er ekki minnst í fjárlögunum eftir því sem ég kemst næst.

Afnám virðisaukaskatts af bókum átti að vera eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar. Því er ekki fyrir að fara í fjárlagafrumvarpinu. Þó er það í stjórnarsáttmálanum. Bókaútgefendur hér á landi eru margir að gefast upp vegna erfiðrar afkomu og farnir að leita til útlanda eftir prentun vegna þess að verð á bókum er í sögulegu hámarki hjá okkur sem höfum kallað okkur bókaþjóð á stundum.

Vissulega er skref í rétta átt að hækka frítekjumark aldraðra úr 25 þús. í 100 þús. kr. En hvers vegna mega eldri borgarar ekki vinna án skerðingar á lífeyri? Ef þeir geta og/eða vilja þá borga þeir tekjuskatt sem að sjálfsögðu rynni í ríkissjóð, ef þeir ynnu meira. Vinnan göfgar manninn er máltak sem engin tilviljun er að á við um okkur öll. Ég hef oft orðið vitni að því að fólk missir heilsuna ef það hættir að vinna vegna aldurs, á vinnumarkaði, en hefur bæði heilsu og áhuga á að fá að vinna lengur. Mætti ekki flokka þetta undir lýðheilsumál?

Ekki hef ég fundið mikið um kjarabætur fyrir öryrkja, enda áttu þær að fara í nefnd samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Talsmenn öryrkja tala um að þrepaskipting á persónuafslætti myndi breyta miklu ein og sér ef farið yrði í þá vinnu.

Sauðfjárbændur eru í bráðavanda og var talað um að bregðast strax við honum, en ekki sést neitt um það í frumvarpinu og eru bændur margir hverjir á leið í gjaldþrot vegna þess ástands. Vandi sauðfjárbænda er mikill af ýmsum ástæðum og voru allir flokkar sammála um það fyrir kosningar að við þeim bráðavanda yrði að bregðast strax.

Innspýting í heilbrigðiskerfið er þó nokkur ef ekki töluverð, svo að maður sé sanngjarn. Þó heyrði ég það eftir heilbrigðisfólki að það efaðist um að þetta dygði til að ná upp fyrir núllið. Því má skjóta inn í að landlæknir sagði í viðtali að það væri ekki endilega peningaleysið sem hrjáði heilbrigðiskerfið heldur skipulagsleysi og er athyglisvert að heyra það þegar forstjóri Landspítalans er sífellt að tala um fjársvelti. Þá datt mér í hug úr bókinni Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness að Jón Hreggviðsson á Rein sagði að það væri ekki af iðrunarleysi sem Íslendingar væru á vonarvöl, það væri frekar út af snærisleysi.

Þetta er að sjálfsögðu útúrdúr.

Kennarar kvarta yfir miklu álagi vegna kerfisbreytinga í skólakerfinu sem voru gerðar fyrir nokkrum árum en þeim fylgdi ekki fjármagn. Hefur því álagið á kennara aukist sem því nemur en launin ekki hækkað til samræmis við það.

Ekki er minnst á félagsbætur og úrbætur í húsnæðismálum. Það eru ekki allir sem vilja og/eða hafa tækifæri til að kaupa sér húsnæði.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur orðið tíðrætt um að bætur í samgöngumálum væru góðar. Ef betur er að gáð er munur á milli síðasta fjárlagafrumvarps og þess sem nú er (Forseti hringir.) aðeins 1,5 milljarður í viðbót. Og í hafnamálum 600 milljónir.