148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu ágæta máli. Sá sem hér stendur hefur litla reynslu af störfum og vinnnubrögðum á hinu háa Alþingi, en hingað til hefur hún verið ánægjuleg. Eitt og annað hefur þó vakið athygli mína. Á mínum fyrsta nefndarfundi í gærmorgun kom einn ónefndur gestur úr einu ráðuneytinu og varð að orði að þeir hygðust leggja fram frumvarp eftir áramót um tiltekið mál. Þetta er e.t.v. ein birtingarmynd þess sem margir nefna sem einn af vanda löggjafarvaldsins, þ.e. að framkvæmdarvaldið sé að gerast ansi frekt á garðanum, og lýsir auðvitað þeim veruleika að allflest lagafrumvörp, a.m.k. þau sem verða að lögum, eiga rót sína úr ranghölum ráðuneytanna.

Vegna aðstæðna við vinnu á fjárlagafrumvarpi nú rétt fyrir jól lendum við í algjörum tímaskorti og þarf að afgreiða þessi frumvörp fyrir áramót. Það er gert í ágætu samkomulagi sökum nauðsynjar málsins. Það er auðvitað ekki boðlegt öllum þeim sem að því koma og mikil hætta á alls kyns mistökum sem er miklu meiri en ef tíminn væri rýmri. Það virðist reyndar vera lenska að þingið afgreiði frumvörp á einhverjum handahlaupum undir lok þings hvers árs. Væri það til bóta ef slík vinnubrögð legðust af því að öll hljótum við að vilja að lagasetning sé eins vönduð og nokkur kostur er.