148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég segi að við karlmenn eigum að segja: Hingað og ekki lengra. Yfirgangur af þessu tagi verður ekki liðinn lengur. Sendum öllum sem telja að frásagnir þeirra kvenna sem stigið hafa fram undanfarið séu eitthvað léttvægar skýr skilaboð um að við líðum ekki svona hegðun og að hún verði ekki liðin lengur. Ég held að við karlmennirnir, af því að mér sýnist þetta vera mjög stórt vandamál og miklu stærra en ég reiknaði með, þurfum hreinlega að fara í ákveðna naflaskoðun. Við þurfum að fara að leita að þessu litla fordómakuski í naflanum á okkur og það er engin afsökun ef við finnum það ekki. Við biðjum bara um aðstoð, vegna þess að það er kominn tími til. Ég get ekki skilið hvers vegna í ósköpunum svona hlutir eiga sér stað. Mér er það óskiljanlegt vegna þess að allir eigum við ömmur, mömmur, systur, dætur og ef við berum ekki miklu meiri virðingu fyrir konum en þetta er eitthvað að. Þá þurfum við að taka á þessum málum vegna þess að þetta eru mannréttindi.

Við þurfum þá sennilega að fara að sýna hvert öðru meiri samkennd og samúð og stöðva allt sem heitir ofríki og ofbeldi. Ég held og ég trúi því að ef við tökum okkur saman getum við lifað í sátt og samlyndi og þurfum ekki að taka upp svona umræðu aftur.