148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

24. mál
[17:45]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni gott mál sem ég vona að við getum öll sameinast um. Það að fæða barn er einn stærsti viðburðurinn í lífi hverrar fjölskyldu og mikilvægt að vel sé að því staðið. En raunin er sú að við sitjum ekki öll við sama borð í þessu landi. Það er staðreynd að dregið hefur úr fæðingarþjónustu um allt land og aðgengi að henni er mismikið. Það veit það enginn fyrr en hann reynir hvernig það er að þurfa að fara um langan veg og vera fjarri fjölskyldu sinni og jafnvel maka þegar kemur að barnsfæðingu. Það getur verið krefjandi og erfitt. Ekki veitir af stuðningi og samstöðu í því. Ég held að þetta sé liður í því að auka jafnrétti til búsetu og gera aðgengi að heilbrigðisþjónustunni jafnara og styrkja byggðirnar um allt land.

Þetta kemur líka inn á byggðasjónarmiðin og jafnrétti til búsetu. Það búa heldur ekki allir við það að geta farið um langan veg og fengið inni hjá ættingjum og vinum til að dvelja um langan tíma ef þess þarf. Þessu fylgir mikill kostnaður fyrir fjölskyldur auk álagsins sem fylgir því að eiga barn og þurfa að vera fjarri heimilinu.

Ég vona að við getum sameinast um að fylgja þessu frumvarpi eftir og bæta úr þessum málum sem skipta okkur öll alveg gríðarlega miklu. Ég fagna því að það sé hér komið og er stolt af því að vera meðflutningsmaður á þessu máli.