148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það voru gleðilegar fréttir sem komu á dögunum eftir haustrall á vegum Hafró, að helstu fiskstofnar í fiskveiðilögsögunni séu í sögulegu hámarki frá því að haustmælingar hófust árið 1996. Þar sem við sem fiskveiðiþjóð stundum sjálfbærar veiðar og farið er eftir ráðgjöf fiskifræðinga sýnir það að við erum á réttri leið þótt alltaf megi gera betur.

Í haust var þáttur í sjónvarpinu um brottkast á fiski og endurvigtun á afla sem var frekar sláandi að sjá. Brottkast á fiski er með öllu ólíðandi og eins út úr hófi ísprósenta í endurvigtun. Þar hefur Fiskistofa eftirlitsskyldum að gegna en á þeim bæ kvarta menn yfir göllum í regluverki sem geri þeim erfitt fyrir að klára mál um meint brot, segja að viðurlögin séu það lítil að menn sjái sér hag í að fara á svig við þau.

Regluverk um forkaupsrétt sveitarfélaga á aflaheimildum er í stuttu máli þannig úr garði gert að það heldur ekki vatni — eða fiski. Forkaupsrétturinn á aðeins við um skipið sem selja á en ekki aflaheimildirnar og er því lítill akkur í því að eiga skip sem ekki hefur kvóta. Þótt bara þetta væri lagfært eru nær engin sveitarfélög og fáar útgerðir eða fyrirtæki sem hafa bolmagn til að nýta forkaupsréttinn. Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setti af stað vinnu í samráði við Byggðastofnun um þessi forkaupsréttarmál. Þar yrði m.a. farið í viðræður við lánastofnanir um leiðir í lánamálum fyrir þau fyrirtæki, útgerðir og/eða sveitarfélög, sem áhuga hefðu á að nýta sér forkaupsréttinn.

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í upphafi eru sjálfbærar veiðar úr fiskveiðilögsögu okkar með heilbrigðisvottorð sem alþjóðasamfélagið hefur sett stimpil sinn á. Meðal annars þess vegna verðum við sífellt að vera á vaktinni um hvernig umgengnin (Forseti hringir.) um auðlindina er á hverjum tíma.


Efnisorð er vísa í ræðuna