148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum á þessari stundu til atkvæða um fjárlög fyrir árið 2018 eftir 2. umr., fjárlög sem bera með sér heilmikla stefnubreytingu, bera með sér áherslur sem kosið var um í kosningum í haust, áherslur sem kristallast í því að við leggjum nú aukinn þunga og auknar áherslu á heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál og eflingu Alþingis. En útgjöld eru ekki markmið, útgjöld eru samt verkfæri þess að við getum farið að láta hlutina virka betur. Í kjölfarið á samþykkt þessara fjárlaga skiptir miklu máli að sjá að við höfum náð að verja efnahagslegan stöðugleika og árangur og vinna við það af ábyrgð. Ábyrgð okkar er mikil að framfylgja þessum fjárlögum þannig að þau verði okkur öllum til heilla.