148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég árétta það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi á undan mér. Það sem við höfum reiknað, þetta eru tillögur sem Píratar hafa líka lagt fram, eru þær tekjur sem koma á móti. Þetta snýst um að eldri borgarar fái ekki skerðingu þótt þeir fari út og vinni. Þær tekjur sem koma í staðinn vegna þess að þeir vinna, borga skatta, hafa meira á milli handanna í neyslu, þá aftur virðisaukaskattur þar, skila sér til baka að miklu leyti, ef ekki öllu. Það eitt og sér eigum við að skoða betur.

Er þetta rétt hjá mér? Er einhver sem getur kinkað kolli í ríkisstjórninni? Hefur ríkisstjórnin kynnt sér það varðandi þessa hluti? Hæstv. velferðarmálaráðherra? Nei, enginn hefur kynnt sér það. [Hlátur í þingsal.] Þetta er nokkuð sem við ættum þá að kynna okkur. Ég er alveg sammála hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, þetta á eftir að gerast, reynum bara að gera þetta sem fyrst.