148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið er já. Ég held að þó að við höfum fengið algerlega óboðlegar upplýsingar um ástæður og ráðstafanir sem gripið hafi verið til við að reyna að bregðast við eða gera eitthvað annað en að henda þessu inn á fjárauka, þá fengum við alla vega sundurliðaða stöðu varasjóða eftir málaflokkum og á móti í fjáraukanum með útgjaldaliðina sundurliðaða eftir málaflokkum. Það hefði verið tiltölulega lítil vinna í sjálfu sér að para þarna einfaldlega út á móti eftir því sem svigrúm var fyrir. Að taka ákvarðanir um að ráðstafa því sem eftir stæði í almennan varasjóð og gefa þá fordæmi um að þannig skyldi þetta meðhöndlað, í takti við það sem Ríkisendurskoðun sagði, að það hlyti alltaf að vera fyrsta skref að tæma varasjóðina þegar aðrar leiðir til að sporna gegn útgjöldum væru tæmdar.