148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu og mundi gjarnan vilja eiga við hann orðaskipti við betra tækifæri og á öðrum tíma dags og árs um heilbrigðismál. Hann fór yfir hér tiltekna hluta heilbrigðiskerfisins af mikilli þekkingu enda hefur hann reynslu á því sviði og miklu meiri reynslu en sú sem hér stendur.

Ég vil í þessu andsvari fyrst og fremst gera grein fyrir þeim vilja mínum að eiga uppbyggilegt samtal til lengri framtíðar, þ.e. samtal um stefnumörkun til lengri framtíðar, því að það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að sá háttur sem hafður er á hér undir mikilli tímapressu við að afgreiða fjárlög er að sumu leyti spurning um að halda áfram í myrkrinu, eins og hann orðaði það sjálfur í ræðu sinni. Það tekur líka langan tíma að snúa þessu stóra skipi. En afstaða mín er sú að til þess að það megi takast þurfum við á bak við slíkar breytingar mjög mikið og þverpólitískt samstarf. Við þurfum í raun sameiginlegan skilning á þeim hluta samfélagssáttmálans sem gott heilbrigðiskerfi á að vera og að það lifi af, ef svo má að orði komast, pólitískar sviptingar, kosningar, ný kjörtímabil, nýja heilbrigðisráðherra o.s.frv. Það er mikilvægt fyrir fólkið í landinu. Það er mikilvægt fyrir fólkið okkar sem starfar að heilbrigðismálum.

Ég vil líka staldra við það sem hv. þingmaður nefndi varðandi skýra verkaskiptingu einstakra þátta, leggja áherslu á gæði, jöfnuð. En mig langar til þess að biðja hann um að segja hér nokkur orð um jöfnuð óháð búsetu, og þá áskorun sem fólgin er í því að tryggja jafnt aðgengi (Forseti hringir.) íbúa okkar dreifbýla lands að heilbrigðisþjónustu.