148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hér var nefnt varðandi skipulagsmálin og eins og ég nefndi áðan tel ég að ein leiðin til að takast á við það sem hv. þingmaður lýsti hér sé einmitt í gegnum landsskipulagsstefnu. En þar kemur náttúrlega líka til að sveitarfélögin í landinu, sem fara með svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, þurfa að vinna að þessum málum í sínum ranni og landsskipulagsstefna getur verið leiðarljós í þeirri vinnu.

Augljósasta dæmið, sem hv. þingmaður nefndi líka í ræðu sinni, eru kannski samgöngumál eins og borgarlínan sem hér var nefnd. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu skoða með borginni þegar að því kemur.

Ég fagna því síðan að við eigum samtal um þessi mál áfram í þinginu og reynum að hjálpast að við að gera þennan málaflokk enn stærri og auka fjármagn til hans.