148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því miður er það þannig að tekjuöflunarleið, sem var að mörgu leyti lík milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, eins og hv. þingmaður segir, fékk um 29% fylgi. (Gripið fram í: … var málamiðlun.) Því miður naut það ekki meiri stuðnings þjóðarinnar. Ég vil líka minna á það, hv. þingmaður, að það var eiginlega engin ein stefna sem hlaut brautargengi. Þess vegna eru væntanlega átta flokkar á þingi, það er partur af því.

Hv. þingmaður talar hér eins og millistéttarfólk, barnafólk eða börn njóti ekki góðs af þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til. Orðræða mín er í engu ósamræmi við það sem ég sagði fyrir kosningar. Ég vil biðja þingmanninn að bera það ekki upp á mig að ég hafi sagt eitthvað annað fyrir kosningar, í kosningabaráttunni, en það sem ég hef hér staðið við.

Hitt er svo annað mál að við erum að stíga fyrstu skrefin og því má heldur ekki gleyma. Þetta er fyrsta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar og ríkisfjármálaáætlun er fram undan og þá sjáum við væntanlega hvert við ætlum að stefna.