148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom líka inn á kjör öryrkja og eldri borgara. Ég vil spyrja hann hvort hann sætti sig við að eldri borgarar og öryrkjar séu á barna- eða unglingatöxtum eða töxtum langt undir þeim, töxtum sem hugsaðir eru fyrir börn og unglinga sem ekki þurfa á húsnæði að halda. Þeir eru svo lágir að það er til háborinnar skammar að 70% af t.d. öryrkjum séu greiddar bætur sem eru undir 200.000 kr.

Síðan er það enn þá meira til skammar að ef þessir öryrkjar fá einhverja styrki til einhvers konar kaupa, lyfjakaupa eða annarra, eru þeir taldir sem tekjur til að skerða aðra bótaflokka. Með því hirðir ríkið 200–250 millj. kr. af þeim sem síst skyldi. Þeir hafa ekki einu sinni efni á að borga það til baka og eiga ekki að gera það. (Forseti hringir.) Þetta er mjög illa gert því að fólk veit ekki einu sinni af því.