148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

afleysingaferja fyrir Herjólf.

[13:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þegar við köllum eftir afleysingaskipum er rétt að þau séu af þeirri gerð og gæðum að þau séu boðleg í þær siglingar sem þau eiga að sinna. Það er bagalegt þegar það gengur ekki upp. Það var til að mynda mjög erfitt varðandi Baldur þegar hann fór í slipp. Þar kom reyndar óvænt upp bilun í Baldri þannig að hann var ónothæfur í nokkurn tíma — það hefur reyndar líka komið upp varðandi Herjólf — en þá var ekki hægt að fá neitt skip til siglinga. Baldur hefur stundum verið tekinn í afleysingar til siglinga frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn. Hann er auðvitað ekki skip af sambærilegum gæðum og gerð og Herjólfur, enda horfa allir til nýrrar ferju sem kemur næsta sumar og á að leysa þessi mál til lengri framtíðar heldur en við höfum þekkt núna í nokkur misseri.

Ég tek undir með hv. þingmanni að ef það reynist rétt að búnaður þessa skips sé ekki boðlegur er það auðvitað mjög bagalegt og ekki gott að bjóða almenningi í landinu upp á slíkan valkost. En ég skal kanna fyrirkomulagið á því og koma þeim upplýsingum til þingmanns og þingheims eins fljótt og auðið er.