148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við hófum þingvikuna á sameiginlegum fundi allra stjórnmálaflokka þar sem við í pólitíkinni tókum höndum saman um viðbrögð við #metoo-byltingunni og ræddum næstu skref. Ég vil þakka fyrir þann fund og þeim sem áttu frumkvæði að honum. Þetta er alvarlegt efni en var ánægjulegur fundur. Samstaða sem þessi er til eftirbreytni og mætti vel hugsa sér í öðrum málum sem slík samkennd ríkir um.

Um fundinn vil ég segja að mér fannst hann vel heppnaður, erindin voru ólík og góð og hreyfðu sannarlega við. Það er gott að finna samhug og samstöðuvilja til breytinga, finna leiðir til að hafna hvers kyns áreitni og taka samtalið áfram og finna málinu formlegri farveg á vettvangi okkar, eins og var m.a. markmið fundarins. Það er nefnilega þannig að hegðun má breyta með reglum en sterkast er að finna að með hugrekki að vopni, eins og sögur kvenna á fjölmörgum sviðum og úr starfsstéttum samfélagsins bera vitni um, með þeirri byltingu sem #metoo sannarlega er, með sögunum og samtalinu, eins og á þeim fundi sem við áttum saman á Grand hótel á mánudaginn, mótast viðhorfs- og hugarfarsbreyting sem er ekki aðeins nauðsynleg heldur ekki síður mikilvæg en sá farvegur samskipta sem við finnum okkur innan stjórnmálanna eða á öðrum vettvangi.

Hvort sem það eru lög eða reglur, verklagsreglur eða siðareglur, þarf að skoða það og auðvitað í tengslum við þetta mál. Ég vil þó meina að stóra skrefið sé byltingin, það hversu raunverulegt og víðtækt og alvarlegt þetta er og að framkalla upplifunina á því, en ekki síst hversu sterkt og tímabært það er að finna í samtalinu þá viðhorfsbreytingu sem á sér stað.