148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágæt svör.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í vinnuaðstöðu og vinnutímaramma, eins og kom aðeins til umræðu hérna áðan, og þá kannski ekki síst ummæli nýkjörins formanns Kennarasambandsins. Ég kann að fara rangt með, það sé formaður Félags grunnskólakennara, ég þori ekki alveg að fara með það. Í Kastljóssviðtali við nýjan formann núna í vikunni kom einmitt fram að helsta baráttumál Kennarasambandsins yrði að fá út úr kjarasamningnum ákveðinn kennsluramma eða viðveruramma.

Mig langar að forvitnast um viðbrögð hv. þingmanns við þessu útspili hjá einni af stærstu kvennastéttunum okkar og líka vel menntaðri sem í kjaraviðræðum sínum virðist ætla að leggja fyrst og fremst áherslu á að draga úr viðveruskyldu á vinnustað fremur en fara í beinar launahækkanir, ef ég skildi þau ummæli rétt.