148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

frumvörp um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[10:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að segja að þessi mál skipta mjög miklu máli. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er margt mjög gott í þeirri tillögu sem kom fram árið 2010 og framsýn hugsun sem er þar á borði. Varðandi vinnu sem tengist tjáningar- og upplýsingafrelsi var nefnd að skila af sér skýrslu rétt í þessu er varðar stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, sem kemur svo sannarlega inn á þessi mál, hvernig við getum stýrt umgjörð fjölmiðla, sem eru fjórða valdið. Við þurfum alltaf að huga að tjáningar- og upplýsingafrelsi.

Varðandi þingmálaskrána eru þau mál ekki á dagskrá ráðherrans eins og staðan er í dag. Hins vegar erum við að skoða þau mál í ráðuneytinu og hef ég fullan áhuga á því að kanna betur hvað má nýta úr því, sér í lagi allt það sem eykur orðspor Íslands á alþjóðavettvangi þannig að við getum staðið enn frekari vörð um tjáningar- og upplýsingafrelsi.