148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Þessi umræða um staðsetningu Landspítalans er orðin ansi löng og að mörgu leyti ansi þreytt. Menn tromma hér upp gang í gang með það að núna séu þeir komnir með lausnina. Núna erum við einmitt búnir að finna nýjan stað. Menn leyfa sér að horfa fram hjá því ítrekað að undanfarin 20 ár hafa fjórar til fimm sérfræðinefndir komist að sömu niðurstöðu. Svo leyfa menn sér að vitna í starfsfólk Landspítalans, að hinn eða þessi starfsmaðurinn eða hinn eða þessi starfsmannahópurinn sé á móti staðsetningu við Hringbraut. Það kann vel að vera að það finnist í hópi starfsmanna einhverjir sem vilja endurskoða ákvörðunina um staðsetningu en séu starfsmenn spurðir eru þeir einhuga um að málið að byggja nýjan Landspítala þoli enga bið. Ef menn eru spurðir: Ertu til í að bíða önnur tíu ár eftir að ákvörðun verði tekin, ertu til í að bíða önnur tíu ár eftir að við byrjum á þessu verkefni sem er þjóðþrifaverkefni og löngu, löngu tímabært? segja menn nei. Þá segja menn nei.

Allir sem vinna á Landspítalanum vilja að byggður verði nýr spítali. Allir gera sér grein fyrir því að það er byrjað að byggja nýjan spítala við Hringbraut og við skuldum þjóðinni að klára það verkefni.