148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

norðurskautsmál 2017.

94. mál
[14:38]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Fyrir liggur skýrsla ársins 2017 frá þingmannanefnd norðurslóða, eða þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál eins og þetta heitir í raun og veru. Hlutverk þingmannanefndarinnar snýst um ráðstefnu á tveggja ára fresti, eða annað hvert ár. Þar sitja átta norðurslóðaríki og fulltrúi Evrópuráðsins. Árið sem ráðstefna er ekki haldin hittast formenn nefnda. Nefndina skipa venjulega þrír þingmenn. Fundir sem nefndin sækir eru þrír til fjórir að jafnaði á hverju ári.

Hlutverk þeirrar þingnefndar, alþjóðaþingnefndar, er að ræða og leggja fram tillögur um áhersluatriði til Norðurskautsráðsins. Eins og augljóst má vera eru löggjafinn eða þing þjóðanna að kallast á við framkvæmdarvaldið, því að eins og kunnugt er Norðurskautsráðið sjálft skipað fulltrúum ríkisstjórna.

Okkar hjartans mál héðan frá Íslandi hafa verið loftslagsmál jafn brýn og þau eru, sjálfbær ferðaþjónusta, íslensk reynsla í þeim efnum, réttur til sjávarnytja hefur einkum snúist um spendýr, þ.e. sel, hval, hvítabjörn og rostung, og síðan jafnrétti kynjanna sem við álítum að sé mjög mikilvægt mál á norðurslóðum, lykill að mörgum lausnum á vandamálum sem þar eru.

Nú um hríð er verið að undirbúa ráðstefnu sem haldin verður í haust í Inari. Þá koma ný áhersluatriði til sögunnar. Við höfum rætt um mikilvægi nýsköpunar. Við höfum rætt um andóf gegn vímuefna- og áfengisneyslu unglinga eða hinnar ungu kynslóðar og stuðst þar við hið svokallaða íslenska líkan sem stundum hefur gengið undir nafninu „Planet youth“ á ensku og erum þar að horfa til Vestnorden eða Vestnorræna ráðsins sem hefur tekið þetta upp á arma sína og viljum styðja það til þess að vera útvíkkað til allra norðurslóðanna.

Við höfum rætt um frumbyggjaskóla eða námskeið, en eins og nafnið bendir til er það ekki skóli fyrir frumbyggja eins og margir gætu haldið heldur öfugt, að frumbyggjar fræði aðra um sýn sína á náttúruna og á loftslagsbreytingar og hvernig hægt er að lifa að við breyttar aðstæður. Þetta gæti verið skóli eða námskeið.

Við höfum rætt um bætta félagsþjónustu. Við höfum rætt um orkuframleiðslu með nýstárlegum hætti og aukna samskiptatækni á norðurslóðum eða betra samband, síma, tölvur og annað slíkt, sem er mjög mikilvægt í þessum efnum.

Þetta er það sem við eigum eftir að forma betur til að fara með á ráðstefnuna í Inari í haust. Þegar hún er afstaðin munu þessar tillögur, sem oftast eru 30–40, við getum kallað það ályktanir, stuttar ályktanir, ganga til Norðurskautsráðsins og fá þar meðhöndlun og verða vonandi til einhverra áhrifa.

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu 2019. Það er mikilvægt að Alþingi tengist inn í undirbúning og þá vinnu sem er þegar hafin sem lýtur að því hvernig þetta verður framkvæmt í tvö ár og hver áhersluatriði Íslands muni verða. Mjög mikilvægt er að reyna að tryggja að áherslur þingsins komist til skila í þeirri vinnu ekki síður en í allri starfsemi og stefnu Norðurskautsráðsins.

Þetta er sem sagt mikilvægt starf lítillar nefndar. Hún vinnur afar vel. Það er sérstök ástæða til að geta ritara nefndarinnar, Örnu Bang, sem er eiginlega stór þáttur sem knýr þessa vél áfram, þessa litlu nefnd. Á síðasta ári sátu með mér í nefndinni Njáll Trausti Friðbertsson og Óli Björn Kárason.

Nú er komin ný nefnd til skjalanna. Hún hefur verið valin hér á þingi. Auk mín munu sitja hana Björn Leví Gunnarsson og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Ég lengi þetta ekki frekar. Skýrslan liggur frammi, bæði á netinu og á annan máta. Læt þessu hér lokið.