148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

vegþjónusta.

154. mál
[17:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar fínu spurningar frá hv. þingmanni. Varðandi hvað lagt er til grundvallar við ákvörðun í þjónustuflokka í vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins er fyrst og fremst byggt á tveimur þáttum, annars vegar vetrardagsumferð, svokallaðri VDU, þ.e. meðaltali umferðar um veg að vetri til, og hins vegar á því hve mikilvæg leiðin er talin. Vegir sem tengja saman þéttbýli eru taldir mikilvægir út af vinnusóknarsvæðunum. Mat á mikilvægi leiðar á þeim grundvelli er síðan tvískipt, eftir því hvort um er að ræða veg milli þéttbýlisstaða þar sem fjarlægðin er skemmri en 20 kílómetrar eða veg milli þéttbýlisstaða sem er lengri en 20 kílómetrar. Leiðir milli þéttbýlisstaða falla í sama þjónustuflokk, en á lengri leiðunum geta þjónustuflokkar verið háðir umferð. Þéttbýlisstaður telst sá staður þar sem eru 200 íbúar eða fleiri og þjónustuflokkurinn ræður þjónustustiginu. Sé vegurinn að öðru leyti talinn mikilvægur vegakerfinu, t.d. vegna þess að um mikilvæga flutningaleið er að ræða, getur þjónusta á honum verið meiri en ef umferðin ein er lögð til grundvallar. Það gildir sérstaklega um fjölda mokstursdaga. Þjónusta við vegi að öðru leyti byggir að mestu leyti á umferð um þá að vetri til, þ.e. VDU.

Á ofangreindu sjónarmiði byggir síðan skipting vega í þjónustuflokka. Þjónustuflokkarnir eru fjórir. Í 1. flokki eru mikilvægar leiðir þar sem vetrardagsumferð er annars vegar 2.000 bílar á vegi eða fleiri milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum og hins vegar 3.000 bílar eða fleiri á langleið. Þar er fjöldi mokstursdaga sjö dagar í viku.

Í þjónustuflokki 2 eru vegir milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum með umferð milli 300 og 2.000 bílar, og vegir sem falla undir langleið með umferð milli 500 og 3.000 bílar. Þar er fjöldi mokstursdaga sex til sjö eftir atvikum.

Í þjónustuflokki 3 getur einnig verið um sex til sjö daga þjónustu á vegum að ræða þar sem umferðin er undir 300 bílum á vegi milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum og langleið með umferð undir 500. Aðrir vegir geta fallið í þjónustuflokk 3 með þriggja til fimm daga þjónustu ef umferð er yfir 100 bílum. Það á sérstaklega við um safnleiðir.

Að lokum kemur þjónustuflokkur 4 fyrir aðra vegi með ótilgreindri umferð sem fá lágmarks reglubundna þjónustu. Fyrir utan þessa skiptingu eru síðan vegir sem falla undir svokallaða helmingamokstursreglu og eru þjónustaðir allt að þrisvar sinnum í viku. Helmingamokstursregla er þá með sveitarfélögunum.

Í öðru lagi: Til hvers var horft þegar ákvörðun var tekin í byrjun árs? Sú aukning miðaðist við grundvallarreglur Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu, samanber svar við fyrstu fyrirspurninni, og var tillaga um fjölda snjómokstursdaga byggð á umferðartölum um vetrardagsumferð sem og þjónustuflokkum sem byggð var á mikilvægi leiða. Dæmi: Vegur með vetrardagsumferð með yfir 100 bíla fékk tveggja daga þjónustu, vegur með vetrardagsumferð yfir 200 fékk þriggja daga þjónustu, vegur með 300 bíla fékk fimm daga þjónustu, vegur með 400 bíla umferð fékk sex daga þjónustu og loks mikilvægir vegir með vetrardagsumferð yfir 500 bílum fékk sjö daga þjónustu.

Í samræmi við það var einnig leitast við að auka vetrarþjónustuna á vegum sem setið höfðu eftir. Þetta eru vegir þar sem umferð hafði aukist, en þjónusta á þeim hafði staðið í stað og þeir þannig ekki með sambærilega þjónustu og aðrir vegir með svipaða umferð. Þannig urðu sumir vegir sem þetta átti við með reglulega þjónustu en voru með takmarkaða þjónustu áður. Þegar tekin var ákvörðun um aukna vetrarþjónustu nú í janúar var ekki lagt til að draga úr þjónustu á vegum þar sem umferð hefur dregist saman.

Varðandi þriðju spurninguna um hvernig þjónustan skiptist á þjóðvegi 1 eftir þjónustuflokkum 1, 2 og 3, þ.e. hversu margir kílómetrar eru í hverjum flokki og hvernig þeir dreifast, þá er þetta allnákvæmt skjal sem ég ætla ekki að lesa upp hér, en ég mun koma upplýsingunum til þingsins og þingmanna. Vegalengd í þjónustuflokki 1 er 336 kílómetrar. Í þjónustuflokki 2 eru þeir tæplega 1.500, í þjónustuflokki 3 tæplega 2.500 og í þjónustuflokki 4 eru rúmlega þúsund kílómetrar.

Varðandi síðustu spurninguna, hvernig eftirliti er háttað með vetrarþjónustu og hvað felist í því eftirliti er hún tvíþætt; annars vegar er um að ræða eftirlit með því, hvort þörf er á þjónustunni, þ.e. söltun og opnun. Hins vegar er um að ræða framvirka upplýsingaöflun til þess að geta gefið upplýsingar um færð.

Upplýsingaöflun í þessu skyni fer fram með tvennum hætti; annars vegar er fylgst með veðri og þannig metin sú þörf og hins vegar er haft eftirlit með færð. Eftirlit með færð fer fram með fjarvöktun með myndavélum, veðurstöðvum, og einnig með eftirlitsakstri. Þá er einnig eftirlit með vinnugæðum á vettvangi, auk reglulegs eftirlits með virkni og ástandi tækja og búnaðar. Eftirlit með tækjunum fer fram tvisvar til fjórum sinnum á ári. Nýtt er einnig (Forseti hringir.) áhættumat. Slíkt áhættumat er gert til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru gerðar tíðari úttektir en annars staðar. (Forseti hringir.) Þá mæta einnig eftirlitsmenn frá Vegagerðinni og meta hvort nægilega vel sé að verki staðið, t.d. hvort nægilega hafi verið rutt (Forseti hringir.) og slíkt. Það eftirlit er haft eftir því sem þörf er talin á.