148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[19:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég veit að hann er varkár maður að eðlisfari og vill fara vel ofan í þá hluti sem hann vinnur og vinnur þá vel.

Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum Marinós G. Njálssonar og hef átt við hann þó nokkur samskipti um vísitölur o.s.frv. Ég hef líka verið í töluverðum samskiptum við ágætan mann sem doktor Ólafur Margeirsson heitir, sem er líklega einn af okkar fremstu hagfræðingum nú um stundir og átti t.d. gríðarlega góða innkomu á fund sem haldinn var í Háskólabíói í undanfara kosninga sem haldnar voru í haust. Þar tók hann t.d. peningamálastefnu Seðlabanka Íslands niður með rökum, kubb fyrir kubb, það stóð ekkert eftir, ekki neitt. Ég hef ekki skilið hann þannig að þessi aðgerð sem ég boða muni í sjálfu sér skekkja, hvað á ég að segja, eitthvert stöðugleikamódel eða eitthvað slíkt.

Hitt er svo annað mál að jafnvel þó eða þegar húsnæðisliðurinn verður tekinn út úr vísitölunni, þá mun Hagstofan halda áfram að mæla með hann innan borðs. Við fáum enn þá að sjá hvað þessi aðgerð gerir, bæði til skamms tíma og langs tíma. Eins og ég sagði áðan þá tel ég það alveg einsýnt að á meðan það ástand ríkir að hér vantar á annan tug þúsunda íbúða, bara til þess að menn geti flutt að heiman frá pabba og mömmu og stofnað heimili og að eldra fólk geti farið í minna húsnæði, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að þetta skekki myndina eitthvað. Ég segi: Það er kominn tími til þess að heimilin í landinu beri ekki alla áhættu þegar lán eru annars vegar.