148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Herra forseti. Nýverið kynntu sauðfjárbændur metnaðarfullt verkefni sem miðar að fullri kolefnisjöfnun íslenskrar sauðfjárræktar á fimm árum. Grunnur verkefnisins var úttekt á kolefnisfótspori greinarinnar sem unnin var fyrir bændur af Umhverfisráðgjöf Íslands.

Þetta er hluti af umfangsmikilli stefnumótun sauðfjárbænda til tíu ára og var unnin á meðan sá sem hér stendur gegndi formennsku í Landssamtökum sauðfjárbænda.

Kolefnisfótspor íslenskrar sauðfjárræktar er áætlað 291 þús. tonn á ári. Það er tæpur helmingur alls kolefnisfótspors íslensks landbúnaðar. Það er mikilvægt að upplýsingar sem þessar séu uppi á borðum svo neytendur geti vitað um umhverfisfótspor þeirrar vöru sem þeim stendur til boða. Þannig hafa neytendur betri forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir við vörukaup.

Ríkið hefur margþætta stefnu í umhverfismálum og ríkisstjórnin stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040. Hið opinbera er stór kaupandi vöru og þjónustu á Íslandi, hugsanlega sá stærsti. Heildarinnkaup ríkis og sveitarfélaga nema um 300 milljörðum á ári. Talsverður hluti af því er matur. Í innkaupastefnu ríkisins frá árinu 2002 kemur fram að taka skuli tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þá tegund sem telst síður skaðleg umhverfinu.

Það er mikilvægt í því ljósi að hið opinbera, sem stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040, dusti rykið af innkaupastefnu ríkisins og fari ofan í saumana á öllum innkaupum sínum sem tengjast matvælum. Við þá endurskoðun er einnig gott að hafa í huga eftirfarandi atriði: Sýklalyfja-, eiturefna- eða hormónanotkun í framleiðsluferlinu og að siðlegir búskaparhættir séu hafðir að leiðarljósi.