148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið kallað eftir samgönguáætlun í þessum sal og eðlilegt að það sé gert. Ég segi fyrir mína parta að ég vil frekar sjá að samgönguáætlun sé vel unnin og að forgangsraðað sé eftir þörf vítt og breitt um landið þó að hún komi eitthvað seinna fram, og að hún verði síðan fjármögnuð í fjárlögum. Við höfum allt of oft fengið samgönguáætlanir sem síðan hafa ekki verið fjármagnaðar í fjárlögum. (Gripið fram í.)Fjármálaáætlun er í vinnslu. Það þarf að endurspeglast í fjármálaáætlun að sjálfsögðu. Síðan eru nú enn unnin fjárlög hérna á þinginu. Þó að fjármálaáætlun sé unnin með reglulegu millibili, þá erum við enn með fjárlög hér. Við þurfum að láta það endurspegla samgönguáætlun og þann vilja sem þar kemur fram.

Ég treysti því að við leggjum öll okkar af mörkum í það að þessi samgönguáætlun endurspegli þá miklu þörf sem er í innviðauppbyggingu í landinu.

Hér er talað um afgang hjá ríkissjóði. Í samgöngumálum og innviðauppbyggingu erum við að horfa til fjárfestinga sem eiga að endast í marga áratugi. Þetta er ekki skammtímaráðstöfun. Við erum að tala um fjárfestingu fyrir næstu kynslóðir jafnvel, svo að það verður að fara að spýta í lófana.

Ég mun gera hvað ég get til að berjast fyrir því að góð samgönguáætlun komi hér fram og að hún verði fjármögnuð í fjárlögum. Ég treysti því að allir þingmenn hér inni leggi hönd á plóg í þeim efnum.