148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

ráðstefna um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála.

118. mál
[12:51]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mikilvægi smáþjóðanna við Norður-Atlantshafið á að vera flestum ljóst. Ég ætla aðeins að nefna örfá atriði. Ég ætla að nefna þekkingu á umhverfinu og reynslu við að nýta náttúruna og ég ætla að nefna frumkvæði að lausnum sem eiga við í þeim efnum, jafnvel nýstárlegar lausnir, nýsköpun.

Ég ætla að nefna mikilvæga hagsmuni sem löndin eiga á þessum slóðum og gera þjóðirnar að gæslumönnum lands og sjávar á þessu stóra haf- og landsvæði sem markast af Norður-Atlantshafinu og Norður-Íshafinu. Þar sem við erum gæslumenn á slíku landsvæði setur það okkur ákveðið hlutverk.

Ég ætla að nefna margþætta menningu og samfélag sem leitar venjulegra friðsamlegra lausna. Það er til fyrirmyndar.

Löndin þrjú eru kirfilega komin í hringiðu heimsmála, eins og hv. málflytjandi sagði á undan mér. Það er alveg hárrétt. Það er vaxandi áhugi á norðurslóðum í hringiðu hlýnandi loftslags. Stórþjóðir og þjóðabandalög horfa til vestur-norðursins, eins og við getum kallað þetta landsvæði eða hafsvæði.

Í því ljósi vil ég hvetja til þess að þessi mikilvæga þingsályktunartillaga um nýmæli í ráðstefnuhaldi verði samþykkt sem allra fyrst og að slík ráðstefna eigi hér gott gengi þegar — ég þori ekki að segja ef, heldur þegar hún verður haldin.