148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér fari fram umræða um stöðu lýðháskóla. Á Seyðisfirði hefur verið starfræktur lýðháskóli frá árinu 2014 án þess að til sé lagaumgjörð um þá starfsemi. Ég fagna því mjög að sú vinna skuli vera að hefjast í menntamálaráðuneytinu — eða halda áfram.

Lýðháskólar eiga sér sögu hér á landi þó að við eigum ekki sérstaka umgjörð um þá og má minna á alþýðuskólana sem störfuðu í upphafi síðustu aldar. Ég var sjálf svo heppin að hljóta hluta af minni skólagöngu í Alþýðuskólanum á Eiðum sem að mörgu leyti byggði á og bjó enn að þeirri lýðháskólahefð sem ríkir á Norðurlöndunum.

Mig langaði líka að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem á erindi inn í þetta samtal, um vestnorræna eftirskóla sem var hér til umfjöllunar fyrir helgi; eftirskólarnir eiga margt skylt við lýðháskólana.