148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það væri nú óskandi að ekki þyrfti að ræða þetta meira eftir þessa fínu ræðu hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér. Það er nú samt þannig að við þurfum víst eitthvað að ræða þetta meira. Ég ætla að reyna að fara yfir þetta allt saman á þeim stutta tíma sem við höfum til að ræða þetta mikilvæga mál. Þetta er merkilegra mál, held ég, en fólk gerir sér kannski grein fyrir. Menn nálgast það svolítið út frá tíðarandanum í dag, út frá því sem gerist í dag, en þetta er í reynd mál sem varðar ekkert minna en menningarsögu og menningarþroska mannkynsins í heild sinni í grundvallaratriðum.

Hvað varðar afstöðu mína til frumvarpsins sjálfs þá er ég í grundvallaratriðum sammála markmiðum þess. Ég er óviss um refsirammann og lagatæknina, hvort tveggja atriði sem ég myndi algjörlega treysta þingnefnd til að fara betur í saumana á. En markmiðið er göfugt, nauðsynlegt og að mínu mati óumflýjanlegt. Ég held að það sé tímaspursmál hvenær svona lög verða fest í sessi, bæði hér og alls staðar í heiminum, alla vega þeim heimi sem við getum kallað frjálsan, þar sem fólk hefur trúfrelsi, tjáningarfrelsi og friðhelgi og rétt yfir eigin líkama. Sú verður þróunin svo lengi sem baráttan fyrir mannréttindum heldur áfram að ná árangri. Það eina sem gæti hindrað þessa þróun í mínum huga er ef baráttan fyrir mannréttindum fer á bak aftur, ef bakslag verður í þeirri réttindabaráttu. Það hefur komið fyrir í sögu mannkyns að bakslag verður í framþróun. Fall Rómaveldis er gott dæmi um það.

Það er mjög gleðilegt að þetta sé komið til umræðu óháð því hvað fólki finnst um efni frumvarpsins sjálfs. Við þurfum aðeins í nútímasamfélagi að fara að tala um það svolítið heiðarlega, það er ekkert endilega þægileg umræða fyrir okkur öll, en við verðum að taka hana, um það hvernig trúarbrögð, trúarhefðir, halda aftur af mannréttindum og framþróun. Nú vona ég að enginn sé að fríka út af hneykslun. Þetta er ekkert svo svakalegt sem ég var að segja, þetta er bara söguleg staðreynd. Þá er auðvitað ekki verið að tala um öll trúarbrögð, þau eru afskaplega misjöfn og til alveg endalausir angar úr hverjum þeim trúarbrögðum sem yfir höfuð bera nafn. Kristnir eru ekki sammála. Múslimar eru ekki sammála. Gyðingar eru ekki sammála. Og guðleysingjar eru ekki sammála. Fólk er bara ekkert sammála og það er allt í góðu, það er fallegt, það er æðislegt.

Þjóðkirkjan, ríkiskirkjan eins og ég kalla hana, hefur barið sér á brjóst fyrir að hafa keyrt áfram mannréttindi og svoleiðis, þegar það var einmitt þjóðkirkjan sem hélt aftur af réttindum samkynhneigðra til að mega gifta sig á trúarlegum forsendum, af trúarlegum ástæðum. Það var þannig. Ég veit að nú loksins hefur sá afleiti málflutningur verið rekinn til baka, sem betur fer, og löngu kominn tími til. Það var hvað, 2011, sem við góðfúslega leyfðum samkynhneigðum að gifta sig. Þetta er hlægilegt ef það væri ekki svona sorglegt. Það voru trúarlegar ástæður fyrir því að það tók þetta langan tíma. Það skal enginn dirfast að verða móðgaður yfir þeirri sögulegu staðreynd. Og það er ekki dónalegt að nefna það, það á bara tala um þetta eins og það er.

Hvað varðar þetta mál og þetta inngrip, umskurð drengja, þá hef ég tekið eftir því í umræðunni að mikill ágreiningur er um það hversu mikið inngrip þetta raunverulega sé. Það er það sem ég kalla staðreyndaspurningu. Fólk greinir á um það hvort þetta sé það sársaukafullt. Fólk greinir á um það hvort það sé sýkingarhætta. Þetta er allt eitthvað sem hægt er að rannsaka og komast að fyrir víst, þetta er ekki háð gildismati eða áliti flutningsmanna eða ræðumanna hérna. Þetta er eitthvað sem hægt er að finna út úr.

Allt sem ég hef lesið um þetta bendir til þess að sársaukinn af þessari aðgerð sé óheyrilega mikill, alveg skelfilegur. Það er ekki hægt, þegar börn eru átta daga gömul, að deyfa þau þannig að hægt sé að draga eitthvað úr því. Það er stærsta ástæðan fyrir því að ég er hlynntur þessu frumvarpi og finnst þetta sjálfsagt, bara einfaldlega sársaukinn sem barnið verður fyrir. Börn á þessum aldri eru það ung að þau geta ekki myndað minningar. Þess vegna gleymum við þessu öll, öll okkar sem höfum gengið í gegnum þetta — sem er ekki ég, meðan ég man — við gleymum því öllsömul. (Gripið fram í.)Ef maður er eldri þá er bæði hægt að deyfa mann eitthvað og sömuleiðis þá man maður það auðvitað. Það er ekkert skrýtið að fólk muni ekki eftir þessum hræðilega sársauka, en hann á sér stað; hann á sér stað á meðan barnið fer í gegnum þetta átta daga gamalt eða hversu ungt svo sem það er.

Ég ber virðingu fyrri því sem hv. 4. þm. Suðvest., Guðmundur Andri Thorsson, sagði hér áðan, hann nefndi að hann vildi kannski frekar koma þessu á með samtali en valdboði. Mér finnst augljóst að í hegningarlögum eigi að vera bann við því að ganga svona á friðhelgi og réttindi barna, líkamlega friðhelgi þeirra. Mér finnst það augljóst. Að sama skapi ber ég virðingu fyrir nálguninni vegna þess að þetta er auðvitað, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu vitfirrt sem það er, afskaplega djúpstæð trú ofboðslega stórs hóps fólks. Það er vandamál sem verður að leysa að miklu leyti með samtali, en ég lít líka á framlagningu þessa frumvarps og þessarar umræðu hér sem hluta af því samtali. Það gleður mig að við séum í heimsfréttunum yfir þessu máli. Það gleður mig að fólk sé virkilega að ræða þetta og virkilega að rífast um það, því að það er kominn tími til, þó fyrr hefði verið. Þetta er enn ein trúarkreddan sem heldur aftur af réttindum okkar, í þessu tilfelli ungbarnanna okkar. Við getum alveg talað um það að samkvæmt hinum og þessum bókum heimti almættið virðingu annarra fyrir trúarkreddum manna. Þau rök verða bara að víkja.

Ég hef samt sem áður áhyggjur af því að við gerum þetta með þessum hætti, að gera þetta beinlínis refsivert, sér í lagi með svona háum refsiramma. Mig langar að viðra þær áhyggjur. Ein er sú að þetta verði framkvæmt samt sem áður, þetta einfaldlega stöðvi ekki fólk, vegna þess að, eins kjánalegt og það er þá er, þetta er mjög djúpstæð trúarsannfæring sem er til staðar hjá mörgum trúarhópum og djúpstæðar bábiljur hjá öðrum hópum, eins og í Bandaríkjunum, þar sem þetta er ekki gert á trúarlegum grundvelli, en ofboðslega mikið af svona bábiljum í kringum þetta sem halda þessu í sessi. Þegar svona ströng sannfæring er til staðar þá er hætt við því að fólk fari einfaldlega á svig við lögin. Ef fólk færi að gera þetta á svig við lögin, af ótta við háan refsiramma, á átta daga gömlum börnum er eins gott að hægt sé að hringja í lækni og þá er eins gott að enginn lendi í vandræðum fyrir að hringja í lækni. Ég hef áhyggjur af því. Eins og ég segi framlagning þessa frumvarps er að mínu mati bara hluti af þessu samtali sem við eigum að taka.

Ég hef líka áhyggjur af öðru sem er samt aðeins annars eðlis, þ.e. að þetta veki upp andúð gegn tilteknum trúarhópum eða auki við árekstra menningarheima. Ég hef séð það nú þegar gerast, mér finnst það mjög leiðinlegt. Við skulum þó halda því til haga að allt slíkt er misskilningur á frumvarpinu. Allt slíkt er byggt á misskilningi og hugsunarleysi. Þetta snýst ekki um að takmarka trúfrelsi neins, þetta snýst ekki um að benda fingri og segja að einhver sé vondur eða einhver sé svona eða hinsegin, þetta snýst bara um að verja réttindi barna, þetta er ekkert flóknara en það í grunninn. Eins og ég segi, misskilningur getur verið skaðlegur.

Eins og ég sagði líka áðan hef ég engar áhyggjur af því að þetta verði varanlega heimilt nema ef eitthvert bakslag verður í baráttunni fyrir mannréttindum. En eins og ég segi þá er ótti minn líka sá að það bakslag geti átt sér stað. Slíkt á sér kannski helst stað þegar menningarlegir árekstrar verða. Ég hef áhyggjur af þessu. En aftur, þetta er allt saman byggt á misskilningi. Ég ítreka að ég er sammála markmiði frumvarpsins og mér finnst þetta augljóst. En eini vandinn fyrir mér er að samfélag manna, mannkyns, er bara enn frekar frumstætt í mjög mörgum atriðum. Þetta er eitt af þeim atriðum þar sem við sættum okkur enn við hefð, mjög gamla hefð, frá tíma sem mér finnst rosaskrýtið að fólk líti á sem heilagan. Ég ætla aðeins að fara út í það, ég ætla að hætta mér aðeins út í það hérna.

Fyrst þarf ég aðeins að nefna trúfrelsið. Það er oft talað um trúfrelsi. Það stenst enga skoðun að þetta mál snúist um trúfrelsi foreldranna. Það snýst hins vegar algjörlega um trúfrelsi barnsins. Oft er spurt: Hversu langt nær trúfrelsi? Ég get alveg svarað því. Það nær alla leið, alla leið fyrir hvern og einn. Það er ekki trúfrelsi eins að neyða einhverju upp á annan. Það er brot á trúfrelsi. Það er brot á trúfrelsi að neyða sínum hefðum upp á annan einstakling. Það er ekki heldur trúfrelsi að njóta sérstakra forréttinda eins og ríkiskirkjuruglið sem við erum með hér á Íslandi. Meira um það síðar. Þetta snýst um trúfrelsi barnsins.

Það má spyrja: Hvers vegna ættum við að standa hér og hindra trúfrelsi fólks? Hvers vegna í ósköpunum ættum við að eyða tíma okkar í það? Er það eitthvert sérstakt áhugamál þingmanna á Íslandi? Humm! Ég ætla að pirra einhvern trúarhóp bara af því bara. Auðvitað er það ekki málið. Málið snýst augljóslega, sem kemur mjög skýrt fram í greinargerð og öllum ræðum stuðningsmanna málsins, um réttindi barnsins og ekkert annað. Fólk getur bara aðeins farið að horfast í augu við það.

Það er enginn að banna fullorðnu fólki að fremja þessa aðgerð ef það sjálft vill, það er enginn að banna fullorðnu fólki það. En við bönnum börnum að drekka, við teljum þau ekki hafa þroska til að ákveða það. Við setjum verulegar takmarkanir á kynhegðun þeirra vegna þess að við teljum þau ekki hafa þroska til þess að taka ákvarðanir um kynhegðun sína. Við leyfum þeim ekki að gangast undir fjárhagslegar skuldbindingar og leyfum þeim ekki að giftast af sömu ástæðu. En hvers vegna í ósköpunum ættum við að halda að átta daga gamall einstaklingur, eða tíu ára einstaklingur, ef út í það er farið, hafi nægan þroska til þess að taka ákvörðun sem þessa? Það er mér er hulin ráðgáta. En gott og vel.

Að því sögðu þá er tíu ára skömminni skárra en átta daga, tíu ára einstaklingur skilur alla vega hugtakið líkamlegur sársauki, getur skilið það í það minnsta. Grunnurinn er auðvitað sá að við þurfum einhvern veginn að leggja á það mat og átta dagar eru augljóslega algjörlega út af kortinu. Ég verð að fara aðeins út í smásamanburð á því hvaðan þetta kemur og hvað við erum að tala um. Ég er ekkert að reyna að vera dónalegur, ég þarf bara að reyna að vera hreinskilinn. En ég verð að vitna í Fyrstu Mósebók, 17. kafla, vers 9–14, með leyfi forseta:

„Guð sagði við Abraham: „Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið.““

Það er þaðan sem þessi hefð kemur.

Förum aðeins framar í tíma. Önnur Mósebók, 31. kafli, vers 15, með leyfi forseta:

„Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða.“

Förum aðeins lengra fram í tímann. Þriðja Mósebók, 20. kafli, vers 27:

„Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.“

Síðast en ekki síst, fyrst ég hef smátíma: Þriðja Mósebók, 24. kafli, 16. vers, með leyfi forseta:

„Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn.“

Þetta er Biblían, virðulegur forseti. Þetta stendur þarna, á eftir þessari hefð um umskurð.

Er það dónaskapur að segja að þetta sé villimennska? Er það dónaskapur að segja að þetta sé algjörlega út úr korti fyrir siðmenntað samfélag? Ef ekki væri fyrir það að trúarbrögð hafa enn svona mikið tangarhald á mannlegu samfélagi værum við þá að nota svona rök þegar við ræðum atriði eins og það hvort við eigum að afnema bann við guðlasti sem, meðan ég man, við gerðum sumarið 2015? Guðlast, skilst mér. Ég held ekki, ég held við værum ekki að ræða það. Ég held ekki að þetta væri á nokkurn hátt umdeilt nema vegna þess að fólk krefst þess að halda í trúarkreddur sem eru ævafornar — og meðan ég man, það eru alveg trúarlegar forsendur til þess að bregða út af þeim. Það er nú ekki þannig, sem betur fer, að fólk sé að lífláta hvert annað fyrir að vinna á hvíldardegi eða hvað annað, það er ekki þannig lengur. Og það er gott. Það er samt alveg hægt að vera gyðingur, það er samt hægt að vera kristinn, það er alveg hægt að vera múslimi, það er ekkert mál. Þetta er allt spurning um það hvað maður sjálfur dregur út úr þessum ritum.

Og meðan ég man, ég er sennilega einn mesti aðdáandi Jesú Jósefssonar frá Nasaret hér inni. Ég ætla kannski ekki að segjast vera mesti aðdáandi hans hér inni, ég ætla ekki að leyfa mér þann hroka, en ég er eindreginn aðdáandi þess manns. Það þurfti engra kraftaverka við, það þurfti enginn að ganga á vatni, það þurfti ekki að vekja neinn frá dauðum — mér finnst skilaboðin bara „meika sens“. Mér finnst rökrétt það sem Jesús sagði, persónulega. Kannski er ég bara skrýtinn. Það þarf engin kraftaverk til að halda í hefðir sínar og það þarf ekki að halda í afturhaldssinnuðustu hlutina í trúarbrögðunum sínum til að kalla sig gyðing, kristinn eða múslima, það er ekki þannig. Sem betur fer er framþróun í öllum trúarbrögðum og þar á meðal í gyðingdómi. Það má nefna að nú er að ryðja sér til rúms hefð sem heitir Brit Shalom, sem kemur þá í stað Brit Milah. Brit Milah er sú hefð að umskera og Brit Shalom er nafngjafarhefð sem andstæðingar umskurðar meðal gyðinga eru farnir að beita í meira mæli. Það er alveg hægt að vera gyðingur án þess að vera umskorinn, það er hægt.

Ég hef ekki tíma til að fara hérna yfir í islam og allt það, en afstaðan í lokin: Ég ítreka að ég er alfarið hlynntur markmiðum frumvarpsins. Þetta er mjög mikilvæg umræða (Forseti hringir.) og öll þau uppsteyt og þau leiðindi sem stafa af þessari umræðu eru mikilvægir vaxtarverkir á leið mannkyns fram á við.