148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Við megum heldur ekki gleyma því að umskurður kvenna eða stúlkna er ekki bara af einni tegund, það eru því miður nokkrar tegundir af slíkum umskurði, misógeðfelldar. Fyrir mér snýst þetta um að hvort tveggja er óafturkræft. Af hverju er refsivert að gera eitthvað óafturkræft við stelpur en ekki stráka? Það má alveg velta því þannig upp.

Mér finnst þetta vera brot gegn barninu. Það er ekki nógu gamalt til að samþykkja þetta eins og þetta tíðkast í dag. Það má líka velta upp trúarlegri spurningu, til þeirra sem trúa því að við séum gerð af guði: Er hann þá að láta okkur fá einhvern óþarfa utan á okkur? Þarf að fjarlægja eitthvað ef svo er ekki? Mín skoðun er sú að það á almennt að halda sig frá kynfærum annarra, það er bara prinsippið, nema leyfi sé gefið, jafnvel þó að um sé að ræða foreldra sem vilja gera eitthvað vegna þess að þeir fæddust inn í eitthvað og trúa einhverju. Ég tek undir það með hv. þingmanni, og ég heyri að við erum öll sammála um það, að réttur barnsins er mestur. En ég get ekki fundið inni í mér að það eigi að vera minna refsivert að fara í óafturkræfa aðgerð á drengjum en stúlkum. Þegar er talað um að þetta sé ekki jafn alvarlegt — þetta er samt óafturkræft. Um það snýst málið. Viðkomandi drengur getur ekki fengið á sig forhúðina aftur ef hún er einu sinni tekin. Það er það sem við eigum að hafa í huga. Mér finnst að þetta eigi að vera jafn refsivert og hitt þó (Forseti hringir.) að ég geti alveg tekið undir að við getum skoðað refsirammann.