148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins.

223. mál
[18:03]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan talaði ég eftir minni bestu vitund, eftir þeim upplýsingum sem ég hef um málið. Út frá þeim upplýsingum sem komu fram hjá hv. þingmanni segi ég að ég mun bara skoða þetta mál betur á þessum grunni og láta skoða hvort hlutirnir séu með þeim hætti sem hv. þingmaður kom inn á.

Þegar þessir blessuðu safnliðir fluttust frá Alþingi yfir til ráðuneytanna hafði ég áhyggjur af því — þessi samtök skila gríðarlega mikilvægu starfi, ég sé það til að mynda í félagsmálaráðuneytinu — að það myndi leiða til þess að starf þessara samtaka myndi með einhverjum hætti dvína. Nú er ég nýkominn inn í ráðuneytið. Ég sé að í þessa safnliði var sótt um 470 milljónir í félagsmálahluta ráðuneytisins en við vorum að úthluta tæpum 180 milljónum. Ég sagði við úthlutun þessara safnliða að tilefni væri til að velta fyrir sér hvort ekki þurfi að standa betur við bakið á þessum þriðja geira. Hann er sannarlega hluti af velferðarkerfinu. Og ég segi það líka hér.

Hv. þingmaður talar um að þarna hafi verið til umgjörð, varðandi umrætt verkefni, en ég held að þarna hafi verið til úrræði. Okkur vantar umgjörðina, finnst mér, sem tengir saman öll þau úrræði sem verið er að bjóða upp á í málefnum barna og tengir þau síðan við heilbrigðiskerfið, menntakerfið og við samtök sveitarfélaga. Það er sú umgjörð sem þarf að búa til og það er sú umgjörð sem ég vil setja í gang vinnu við að búa til. Inn í það geta svo komið þau fjölmörgu úrræði sem bæði eru á hendi ríkisvaldsins og á hendi frjálsra félagasamtaka. Þannig getum við myndað net til að grípa börnin miklu fyrr en við gerum í dag.