148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:11]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur óttast í sjálfu sér ekki neitt. En víst er sú áhætta fyrir hendi að lánastofnanir muni hækka vexti vegna þess að eins og við öll vitum er verð á peningum yfirleitt sett saman eins og verið hefur hér á Íslandi, annaðhvort úr vöxtunum sjálfum annars vegar og hins vegar verðtryggingunni. Það vill nú reyndar svo vel til að lífeyrissjóðir landsins hafa að undanförnu séð sér fært að lækka vexti, en auðvitað hafa þeir vextir borið verðtryggingu.

Aðgerð sem þessi mun gera kröfu um öfluga hagstjórn. Við skulum ekki fara í grafgötur með það. Og auðvitað er nauðsynlegt að á Íslandi sé styrk hagstjórn. Hún hefur verið það núna undanfarin nokkur ár. Við höfum búið við hagfelldar ytri aðstæður og við eigum að nota þær. En ef lánastofnanir á Íslandi myndu fara í stórar nafnverðshækkanir að þessu gerðu hugsa ég að við yrðum ekki einmana hér við Austurvöll.