148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og góð orð. Ég held að það sé alveg rétt að þetta sé náttúrlega ákaflega þægilegt fyrir þá aðila sem hann nefndi undir lok ræðu sinnar. Vandamálið er að ef við t.d. lítum á lífeyrissjóðina er verkefnið upp á framtíðina að gera að auka hlut lífeyrissjóðanna í erlendum eignum, rétt eins og norski sjóðurinn. Síðast þegar ég fletti því upp átti hann engar eignir innan landamæra Noregs þannig að það sjónarmið hlýtur að vega þyngra með tímanum. Kannski höfum við samt ekki efni á að bíða eftir því.

Það er auðvitað eðlilegt að spurt sé hvort vextir kunni að hækka ef húsnæðisliðurinn yrði bara klipptur út eins og gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Hvað í þeirri stöðu sem er uppi á fjármálamarkaði girðir fyrir það að þeir aðilar sem ástunda þessar lánveitingar hækki vexti? Talandi um vexti á verðtryggðum lánum, þetta eru vextir á láni þar sem lántakandinn er búinn að gefa út ókeypis kaskótryggingu, eins og ég nefndi í ræðu minni, gegn öllum verðhækkunum en svo má hann í ofanálag borga fyrir að veita þessa kaskótryggingu. Hann er búinn að lofa að tryggja höfuðstólinn gegn öllum verðbreytingum. Þetta er gífurlega sterkt og víðtækt loforð, svo víðtækt að það stappar nærri því að það kippi fjárhagslegu sjálfstæði undan fótum þess manns sem veitir slíkt loforð, eins og ég rakti í ræðu minni þegar ég talaði m.a. um aflahæfi. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af samkeppnisskilyrðum hvað þetta varðar.