148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég túlka það svo að hann sé stuðningsmaður málsins og flokksfélagar hans líka. Ég fagna því og það gleður mig. Ég vona sannarlega að þeir eigi eftir að sýna það við afgreiðslu málsins áfram, bæði í nefnd og meðförum þingsins á málinu.

Víst er öllum fyrir bestu að skref séu stigin faglega. Málið er hins vegar, eins og ég sagði áðan, að ekki er eftir neinu að bíða með þetta skref. Það er búið að ræða þetta ákveðna atriði. Það er búið að ræða verðtryggingu lána yfir höfuð í pólitík á Íslandi í fimm, sex ár. Það fór svo langt á sínum tíma að afnám verðtryggingar á neytendalánum fór inn í stjórnarsáttmálann, árið 2013. Það vildi bara þannig til að dansfélaginn steig ofan á tærnar á okkur sem þá vorum í öðrum stjórnarflokknum og þetta mál náðist ekki lengra. Það náðist þó inn í stjórnarsáttmála sem þýðir að búið er að ræða þetta mál, eins og ég segi, síðan 2013 eða fyrr og menn hafa verið nokkuð sammála um að eitthvað þyrfti að gera í þessu síðan 2013 eða fyrr.

Ég segi aftur: Hvers vegna að bíða lengur? Hvers vegna ekki að stíga fyrsta skrefið? Þetta skref er út af fyrir sig hóflegt, það leiðir í ljós hvaða breytingar gætu átt sér stað ef verðtryggingin yrði afnumin með öllu. Þetta veitir fjármálafyrirtækjum smáaðlögun þannig að ég sé ekkert að því að við framkvæmum þetta hér og nú og myndi fagna því ef (Forseti hringir.) Framsóknarmenn kæmu með í þann leiðangur.