148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði ágætisviðtal, ef ekki bara stórkostlegt viðtal, við fyrrum forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, um daginn. Eftir að hann var hættur að vera forseti komu að máli við hann einhverjir menn og sögðu: Heyrðu, við þurfum endilega að fá þig í viðtal út af ákveðnu máli, bara hið fyrsta. Hann sagði: Hvernig væri á morgun? Þeir sögðu við hann: Við vorum meira að pæla í því eftir viku. Hann sagði: Í því umhverfi sem ég er að koma úr núna þarf ég að taka ákvörðun á hálftíma, annars deyr einhver.

Það er ekki svo alvarlegt hér að einhver sé að deyja út af því að við tökum ekki ákvörðun um þetta. Hins vegar er það hárrétt sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson bendir á, það er mikil óþreyja úti í þjóðfélaginu eftir því að einhver tali máli lántakenda, einhver tali máli heimilanna gagnvart lánveitendum. Þessi leikur er ægilega ójafn. Þetta er eins og að senda heimilin í hnefaleikahringinn með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Það er bara þannig. Það er ekkert jafnræði í þessum samningum og það er kannski slíkt jafnræði sem við erum að leita að með því að breyta leikreglunum lántakendum í hag. Það blasir við öllum þeim sem sjá afkomu bankanna á Íslandi og hafa horft á hana síðustu níu ár og gaumgæft að bankar og fjármálastofnanir á Íslandi eru ekki á nástrái. Lífeyrissjóðirnir á Íslandi töpuðu 480 milljörðum í hruninu. Þeir eru búnir að ná því öllu til baka og gott betur. Hverjir borga? Það eru þeir sem taka lán hjá þessum sjóðum. Það er löngu kominn tími til að við leiðréttum þetta módel þannig að fólk geti fest sér húsnæði á Íslandi.