148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

framkvæmd og eftirfylgni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

329. mál
[17:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem einnig tóku til máls.

Í 4. gr. barnasáttmálans stendur þetta um ábyrgð aðildarríkja, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.“

Þessi grein segir okkur að við eigum ekki bara að huga að íslenskum börnum, eða börnum sem fædd eru á Íslandi, heldur líka börnum sem eru á flótta og leita skjóls hér. Við þurfum öll að hjálpast að í heiminum. Barnasáttmálinn er samþykktur af öllum ríkjum heims nema Bandaríkjunum, þannig að víðtækar skuldbindingar eru þarna á ferð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að samþykkja þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmálann, og taka þá undir það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði hér áðan. Væri ekki nauðsynlegt að samþykkja þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmálann til að stíga það skref að Ísland verði leiðandi á alþjóðavísu í barnaréttindamálum? Væri það ekki eftirsóknarvert markmið? Það myndi um leið styrkja þá skuldbindingu okkar að hlúa að réttindum barna.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra segi mér hvað henni finnst um þetta.