148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti alveg tvímælalaust máli. Af þeim samtölum sem ég hef átt við fólk sem á barn með öðrum einstaklingi sem býr á öðrum stað — ég tala nú reyndar yfirleitt eingöngu við annan aðilann — er oft um að ræða foreldra sem hafa aldrei verið í sambúð og hafa aldrei haft neinn áhuga á því. Það leikur allt í lyndi. Það eru engin vandamál. Það er enginn ágreiningur. Allir eru sammála um í hvaða skóla krakkinn eigi að fara og allir sammála um allt. En af og til þarf fólk að díla við kerfið og tölvan segir nei vegna þess að það er rangt foreldri þarna eða annað foreldrið má ekki sækja krakkann þangað eða skrá hann þar eða hvaðeina. Þetta býr í það minnsta, eða alla vega er hætta á því, til einhvern núning sem er óþarfur. Ég held að sá óþarfi núningur geti alveg spunnist upp í eitthvað meira, vegna þess að þegar fólk er sett í þá stöðu að þurfa að velja á milli sjálfs sín og einhvers annars, og það er bara annaðhvort eða og ekki hægt að hafa stundum eitt og stundum annað, þarf fólk að hugsa um eigin hag og eigin réttindi og gerir það sjálfsagt. Það býr þá væntanlega til, geri ég ráð fyrir, togstreitu á milli fólks sem er annars í sátt og samlyndi um það hvar lögheimili barnsins skuli vera. Það er alla vega ekkert gott fyrir barn að foreldrar séu að rífast um það. Að vísu er það skömminni skárra að þau vilji bæði hafa lögheimili sitt hjá sér frekar en að þau vilji hafa það hjá hinum.

Þetta er óþarfi. Þetta þarf ekki að vera svona. Mér finnst þetta vera enn eitt dæmi þess hvernig löggjafinn og samfélagið hefur tilhneigingu til að gefa sér fyrir fram ákveðið fjölskyldumynstur, ákveðið fyrirkomulag í því sem annars ætti að heita einkalíf fólks, þótt við þurfum auðvitað að halda því til haga, eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, að réttindi barnsins eru í húfi. Þau eru að mínu mati líka almannahagur.