148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf svo sem ekki að taka orð stjórnarandstöðunnar gild.

En af hverju ekki að hlusta á hagsmunaaðila og sérfræðingana? Eins og ég gat um sendum við 28 umsagnarbeiðnir um þessa stefnu og nánast allir, ef ekki allir, hagsmunaaðilar og umsagnaraðilar sáu ýmsa galla við stefnuna. Hvernig stendur á því að máttleysi þingsins er svo mikið að ekki er hlustað á eina einustu athugasemd? Þetta voru 80 athugasemdir eða ábendingar. Af hverju láta óbreyttir þingmenn stjórnarflokkanna valta svona yfir sig? Þetta er enn eitt dæmið um máttleysi þessa hluta salarins.

Þetta er líka sérstakt áhyggjuefni vegna þess að fjármálastefnan á að gilda í fimm ár. Við erum ekki að fara að gera þetta á hverju einasta ári. Þess vegna er þetta einstakt tækifæri til að mæta a.m.k. hluta þeirra athugasemda sem sumir af þessum hagsmunaaðilum hafa bent réttilega á, hvort sem það er fjármálaráð, Viðskiptaráð, verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, BHM, o.s.frv. (Forseti hringir.) Þess vegna er það afskaplega sorgleg afstaða sem birtist í meirihlutaáliti fjárlaganefndar hér í dag.