148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, aðhaldsleysi? Þegar við lítum á aðhald dugir ekki bara að líta á útgjaldahliðina. Það þarf líka að líta á tekjuhliðina. Vinstri grænir hafa kallað eftir auknum útgjöldum en á sama tíma hafa þeir kvittað upp á að hér sé dregið úr tekjunum. Það er aðhaldsleysi. Það er óábyrgt. Mig langar að beina spurningu til baka: Ætlar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé að styðja það að lækka tekjuskattinn eins og hér hefur verið boðað? Þvert á hagsveifluna og þvert á markmið hans flokks um aukinn jöfnuð. Og hvernig stendur á því að þessi stefna, sem er að mati langflestra hagsmunaaðila keimlík, er allt í einu sú stefna sem hann getur kvittað upp á nokkrum mánuðum eftir að hann skipti um lið, ef svo má segja?